Íslenski boltinn

Fyrstir í sau­tján ár til að vinna fjóra fyrstu leikina tvö ár í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Guðjónsson fagnar marki með Víkingi í Bestu deildinni í sumar.
Helgi Guðjónsson fagnar marki með Víkingi í Bestu deildinni í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson hefur upplifað það bæði sem leikmaður og þjálfari sem mjög fáir hafa upplifað í sögu íslenska fótboltans.

Víkingar eru með fullt hús eftir fjóra fyrstu leikina í Bestu deild karla eftir 4-2 sigurinn á KA í gær og eru að ná því annað árið í röð að vera með tólf stig af tólf mögulegum. Með því eru þeir komnir í mjög fámennan hóp.

Aðeins eitt lið í efstu deild hefur náð því tvö ár í röð að vera með fjóra sigurleiki í fyrstu fjórum deildarleikjunum frá því að deildarkeppnin var tekin upp árið 1955.

FH-ingar náðu þessu þrjú ár í röð frá 2005 til 2007 en þá voru þeir undir stjórn Ólafs Jóhannessonar.

Arnar Gunnlaugsson.vísir/Sigurjón

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, er nú að jafna þetta afrek Ólafs. Svo skemmtilega vill til að Arnar var leikmaður FH liðsins sem náði þessu síðast sumarið 2007.

FH liðið 2007 vann fjóra fyrstu leiki sína en gerði síðan markalaust jafntefli við Fylki í fimmta leik. Áður hafði liðið unnið ÍA (3-2), Keflavík (2-1), HK (4-0) og Fram (2-0). Arnar skoraði mark í þremur fyrstu leikjunum.

FH var þarna að fylgja eftir byrjun sinni frá 2005 og 2006. Sumarið 2005 þá vann FH fimmtán fyrstu leiki sína og árið eftir vann FH-liðið fimm fyrstu leiki sína.

Víkingar unnu níu fyrstu leiki sína í fyrrasumar. Vinni þeir tvo næstu leiki sína, á móti HK og FH, geta þeir orðið fyrsta liðið í sögunni til að vinna sex fyrstu leiki sína tvö tímabil í röð.

Víkingar hafa unnið Stjörnuna (2-0), Fram (1-0), Breiðablik (4-1) og KA (4-2) í fyrstu fjórum leikjunum í Bestu deildinni í sumar.  Í fyrrasumar vann liðið Stjörnuna (2-0), Fylkir (2-0), KR (3-0) og KA (1-0) í fyrstu fjórum leikjunum.

Alls hafa nítján lið unnið fjóra fyrstu leiki sína í efstu deild frá því að deildarskipting var tekin upp 1955. Af þessum átján hafa ellefu orðið Íslandsmeistarara um haustið. Þrjú þau síðustu, Víkingur í fyrra, Breiðablik árið þar á undan og KR-liðið 2013, urðu aftur á móti Íslandsmeistarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×