Íslenski boltinn

Saman á ný eftir súrrealískan dag: „Við erum eins og lím við hvorn annan“

Sindri Sverrisson skrifar
Hörður Ingi Gunnarsson spilar með Val í sumar eftir lánssamning á síðustu stundu fyrir lok félagaskiptagluggans.
Hörður Ingi Gunnarsson spilar með Val í sumar eftir lánssamning á síðustu stundu fyrir lok félagaskiptagluggans. Valur

Fótboltamaðurinn Hörður Ingi Gunnarsson segir síðastliðinn miðvikudag hafa verið „súrrealískan“. Hann hugðist þá spila bikarleik við Val um kvöldið en endaði sem leikmaður félagsins, og varð um leið liðsfélagi leikmanns sem hann þekkir afar vel.

Hörður Ingi var lánaður til Vals frá FH sem fékk í staðinn miðjumanninn Bjarna Guðjón Brynjólfsson að láni. Skiptin áttu sér stað á lokadegi félagaskiptagluggans, sama dag og liðin mættust í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins, á Hlíðarenda, og var Hörður Ingi í leikmannahópi FH þar til á síðustu stundu.

„Þetta var súrrealískt. Ég bjóst ekki við þessu þegar ég vaknaði um morguninn. En fótboltinn er fljótur að breytast og við lifum og lærum af því,“ sagði Hörður í Sportpakkanum á Stöð 2 í gær.

Fékk símtal klukkutíma fyrir mætingu í leik

Eins og fyrr segir stóð til að hann yrði í leikmannahópi FH gegn Val:

„Jú, það var planið. Ég fékk svo bara símtal, klukkutíma fyrir mætingu, og svona breytast hlutirnir. Ég var því bara mættur til að skrifa undir á sama tíma [og aðrir voru að fara að spila bikarleikinn].

Það var stuttur tími til að klára þetta þannig að það var ekki mikið svigrúm til að melta þetta, en mér fannst þetta mjög spennandi og ákvað að stökkva á þetta,“ sagði Hörður og bætti við:

„Valur er frábær klúbbur og með alvöru leikmannahóp. Ég held að þetta sé spennandi skref og ég er mjög spenntur að gera mitt fyrir Val, og reyna að standa mig sem best.“

Þriðja félagið sem þeir spila saman fyrir

Hjá Val hittir Hörður á ný Jónatan Inga Jónsson en þeir léku saman upp yngri flokka og með meistaraflokki FH, fóru svo báðir til Sogndal í Noregi, og eru nú báðir mættir heim í Bestu deildina.

„Við erum eins og lím við hvorn annan. Það er svolítið fyndið hvernig þetta hefur verið en það er alltaf gífurlega gaman að spila með honum og ég hlakka til þess,“ sagði Hörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×