Innlent

Sam­þykktu verk­falls­að­gerðir á Kefla­víkur­flug­velli

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Vísir/Vilhelm

Fé­lags­menn í Fé­lagi flug­mála­starfs­manna rík­is­ins (FFR) og Sam­eyk­is, stétt­ar­fé­lags í al­mannaþjón­ustu, hafa samþykkt verk­fallsaðgerðir á Kefla­vík­ur­flug­velli. Um 80% fé­lags­manna FFR greiddu at­kvæði með aðgerðunum. 

Frá þessu er greint á vef félags flugmálastarfsmanna ríkisins. 

Greidd voru atkvæði um boðun yfirvinnubanns, þjálfunarbanns og tímabundinna og tímasetta vinnustöðvana hjá Isavia.  494 manns voru á kjörskrá og greiddu 377 at­kvæði, eða 76,1 prósent.  Þar af greiddu ríflega 80 prósent með tillögunni. 

Um 80% fé­lags­manna FFR greiddu at­kvæði með til­lög­unni.FFR

Samningaviðræður hafa staðið síðan í september 2023 og var deilunni vísað til ríkissáttasemjara þann 8. apríl síðastliðinn.  Þann 28. apríl var orðið ljóst að ekki væri lengra komist í samtalinu við SA fyrir hönd ISAVIA ohf.

Aðgerðirnar munu koma til framkvæmda kl. 16:00 hinn 9. maí 2024 og verða með eftirfarandi hætti:

  • Frá kl. 16:00 fimmtudaginn 9. maí 2024 hefst ótímabundið yfirvinnubann. Yfirvinnubannið nær til allra félagsmanna Sameykis og FFR.
  • Frá kl. 16:00 fimmtudaginn 9. maí 2024 hefst ótímabundið þjálfunarbann. Þjálfunarbann tekur til félagsfólks Sameykis og FFR sem starfar sem leiðbeinandi og vottaður leiðbeinandi á gólfi.
  • Á tímabilinu frá kl. 04:00-08:00, föstudaginn 10. maí 2024, mun starfsfólk sem sinnir öryggisleit á Keflavíkurflugvelli leggja niður störf sín.
  • Á tímabilinu frá kl. 04:00-08:00, fimmtudaginn 16. maí 2024, mun starfsfólk sem sinnir öryggisleit á Keflavíkurflugvelli leggja niður störf sín.
  • Á tímabilinu frá kl. 04:00-08:00, föstudaginn 17. maí 2024, mun starfsfólk sem sinnir öryggisleit á Keflavíkurflugvelli leggja niður störf sín.
  • Á tímabilinu frá kl. 04:00-08:00, mánudaginn 20. maí 2024, mun starfsfólk sem sinnir öryggisleit á Keflavíkurflugvelli leggja niður störf sín.

Unnar Örn Ólafsson, formaður FFR sagði í samtali við Vísi í síðustu viku að fjögurra tíma vinnustöðvanirnar muni svo gott sem stöðva flug.

„Farþegar munu ekki komast inn á haftarsvæði ef öryggisleit er lokuð. Sömuleiðis mun það taka lengri tíma að ferja farþega yfir í flugvélar.“ 

Hann sagði tímasetningarnar aðgerðanna valdar þannig að þær séu þegar flugfélögin eru að fljúga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×