Innlent

Öllum að­gerðum af­lýst og flug­far­þegar geta andað léttar

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ekkert verður af verkfallsaðgerðunum sem boðaðar voru á keflavíkurflugvelli
Ekkert verður af verkfallsaðgerðunum sem boðaðar voru á keflavíkurflugvelli Vísir/Vilhelm

Samningar voru undirritaðir milli SA fyrir hönd ISAVIA ohf. og samninganefnda starfsmanna Sameykis og FFR rétt í þessu og verkföllum sem boðuð höfðu verið á Keflavíkurflugvelli aflýst.

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir gott að menn hafi náð saman. Hann segir að menn séu yfirleitt ekki hoppandi kátir að loknum kjaraviðræðum, en hann voni að allir séu hæfilega fúlir.

Samningarnir verða svo kynntir fyrir félagsmönnum Sameykis og FFR sem síðan greiða um þá atkvæði.

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis segir að vel hafi gengið að ná jafnvægi milli félaga, sem þau hafi verið að horfa til. Félögin séu heilt yfir nokkuð ánægð með afraksturinn, „þó maður sé að sjálfsögðu aldrei fyllilega ánægður þegar maður skrifar undir kjarasamninga.“ Dagurinn í dag hafi verið hörkuvinnudagur, og það hafi ýmislegt jákvætt gerst. Aldrei nái maður þó öllum sínum markmiðum fram.

Atkvæðagreiðslu félagsmanna um samninginn lýkur í kringum 20. maí

Þórarinn segir að félögin treysti sér vel til að fara með samninginn til félagsmanna, en nú verði farið í kynningarferli þar sem samningurinn verður kynntur fyrir þeim. Svo verði farið í atkvæðagreiðslu rétt fyrir 20. maí sem ljúki á bilinu 23. til 24. maí. Þórarinn ætlar að leyfa sér að vera bjartsýnn á það að samningurinn verði samþykktur, þó það sé aldrei hægt að fullyrða neitt um það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×