Íslenski boltinn

Bragi Karl tryggði ÍR-ingum stig á elleftu stundu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nýliðar ÍR fara vel af stað í Lengjudeild karla.
Nýliðar ÍR fara vel af stað í Lengjudeild karla. hafliði breiðfjörð

Bragi Karl Bjarkason var hetja ÍR þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Grindavík í 2. umferð Lengjudeildar karla í kvöld. Þá vann Grótta Keflavík, 1-0.

Grindvíkingar byrjuðu fyrsta leik sinn í Safamýrinni í sumar vel og komust yfir á 10. mínútu þegar Kwame Quee skoraði með skalla eftir sendingu Einars Karls Ingvarssonar.

Mark Kwames virtist ætla að duga Grindavík til sigurs en í uppbótartíma fékk ÍR víti. Bragi Karl fór á punktinn og skoraði jöfnunarmark Breiðhyltinga.

Hann skoraði einnig úr víti í 1. umferðinni þar sem ÍR vann Keflavík, 1-2, á útivelli. Grindavík er hins vegar án stiga en liðið tapaði fyrir Fjölni í 1. umferðinni, 2-3.

Á Seltjarnarnesinu sigraði Grótta Keflavík með einu marki gegn engu. Það skoraði Tómas Orri Róbertsson, lánsmaður frá Breiðabliki, á 38. mínútu.

Seltirningar eru með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina en Keflvíkingar án stiga.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×