Körfubolti

Murray með ó­trú­lega flautukörfu fyrir aftan miðju er Denver jafnaði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamal Murray og félagar í Denver Nuggets hafa heldur betur svarað fyrir sig eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum gegn Minnesota Timberwolves.
Jamal Murray og félagar í Denver Nuggets hafa heldur betur svarað fyrir sig eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum gegn Minnesota Timberwolves. getty/David Berding

Jamal Murray skoraði magnaða flautukörfu fyrir aftan miðju þegar Denver Nuggets sigraði Minnesota Timberwolves, 115-107, í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA í nótt. Staðan í einvíginu er 2-2.

Denver átti ótrúlegan endasprett í fyrri hálfleik en liðið skoraði átta stig á síðustu tuttugu sekúndum hans. Murray setti punktinn yfir i-ið þegar hann skoraði með skoti fyrir aftan miðju í þann mund sem leiktíminn rann út.

Nikola Jokic skoraði 35 stig, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar fyrir Denver. Aaron Gordon skoraði 27 stig, tók sjö fráköst, gaf sex stoðsendingar og hitti úr ellefu af tólf skotum sínum. 

Murray var svo með nítján stig og átta stoðsendingar auk flautukörfunnar ótrúlegu.

„Leikur tvö vakti okkur klárlega,“ sagði Murray eftir leikinn og vísaði til annars leiks liðanna í Minnesota sem Denver tapaði, 106-80. Síðan þá hafa meistararnir unnið tvo leiki í röð og jafnað einvígið.

Anthony Edwards átti enn einn stórleikinn fyrir Minnesota og skoraði 44 stig. Enginn annar leikmaður Úlfanna skoraði meira en fimmtán stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×