Enski boltinn

Kröfðu Bayern um 100 milljónir fyrir þjálfarann

Valur Páll Eiríksson skrifar
Glasner fer hvergi.
Glasner fer hvergi. EPA

Bayern München leitar enn logandi ljósi að nýjum þjálfara til að taka við stjórnartaumunum í sumar. Crystal Palace á Englandi sendi liðinu skýr skilaboð þegar spurst var fyrir um þjálfara liðsins.

Austurríkismaðurinn Oliver Glasner, sem þjálfar Crystal Palace, virðist næstur á lista Bæjara eftir misheppnaðar tilraunir til að ráða Xabi Alonso, þjálfara Leverkusen, og Ralf Rangnick, þjálfara austurríska landsliðsins.

Samkvæmt þýska miðlinum Bild krafðist Crystal Palace 100 milljóna punda frá Bayern til að losa Glasner undan samningi í Lundúnum. Hann sé því ekki á förum.

Glasner tók við Palace af Roy Hodgson 19. febrúar síðastliðinn. Félagið hefur unnið sex af tólf leikjum undir hans stjórn og aðeins tapað þremur. Hann stýrði áður Wolfsburg og Eintracht Frankfurt í Þýskalandi og vann Evrópudeildina með síðarnefnda félaginu vorið 2022.

Þjálfaraleit Bayern München heldur áfram um hríð en Thomas Tuchel er á förum frá félaginu þegar yfirstandandi leiktíð lýkur. Bayern horfði á eftir þýska meistaratitlinum í hendur Bayer Leverkusen og er þetta í fyrsta sinn í tólf ár sem liðið vinnur ekki þýska meistaratitilinn.

Liðið féll út í 2. umferð þýska bikarsins eftir tap fyrir þriðju deildarliði Saarbrücken og tapaði í þýska ofurbikarnum fyrir RB Leipzig í upphafi leiktíðar. Eina von liðsins um titil var í Meistaradeild Evrópu en sú varð að engu eftir að liðið féll úr leik fyrir Real Madrid í undanúrslitum á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×