Skoðun

Lokað á börn í vanda

Sigmar Guðmundsson skrifar

Þótt sumarið sé vissulega dýrmætara hér á Íslandi en víða annars staðar, þá er algerlega óverjandi að lykilstofnanir sem þjóna fárveiku fólki loki yfir sumartímann í sparnaðarskyni.

Það á að loka meðferðardeild Stuðla í fjórar vikur í sumar frá 10. júlí til 8. ágúst. Þar hafa börn og unglingar fengið dýrmætan stuðning, meðal annars vegna hegðunar- og fíknivanda. Þetta er úrræði sem skiptir gríðarlegu máli fyrir börnin, ungmennin og fjölskyldur þeirra. Oft algert lykilúrræði í vanda sem í sumum tilfellum hefur verið óyfirstíganlegur hjá fjölskyldum.

En við skellum í lás á sumrin. Þetta er auðvitað enn ein birtingarmynd þess hve þjónusta við fólk á öllum aldri, sem glímir við fíknisjúkdóm, er brothætt á Íslandi. Þær stofnanir sem veita þessa þjónustu, sem stundum skilur á milli lífs og dauða, búa við svo knappan fjárhag að það þarf að loka á sumrin. Þetta er sérstaklega nöturlegt þegar um er að ræða börn og ungmenni. Meðferðardeild Stuðla er sérhæft úrræði fyrir viðkvæman hóp sem má alls ekki við verri þjónustu.

Ég efast ekki um að starfsfólk mun gera sitt besta til að grípa til annara ráða í þröngri stöðu til að aðstoða fjölskyldurnar sem reiða sig á þessa þjónustu. En það á ofur einfaldlega ekki að setja starfsfólkið í þá stöðu. En því miður er það þannig að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar birtist okkur svo skýrt með þessum hætti.

Hver verður afleiðingin af þessu? Jú, langir biðlistar lengjast, vandinn færist til í tíma og álagið á kerfið eykst. Þjónusta við börn og ungmenni versnar og þau líða fyrir og þjást.

Höfum eitt á hreinu. Sumar stofnanir er svo mikilvægar að þeim má ekki skella í lás á sumrin. Það gildir um meðferðardeild Stuðla og meðferðarstöðina Vík hjá SÁÁ en samt er lokað vegna fjárskorts.

Í dag er 15 maí. Ég óttast að það sé orðið of seint að koma í veg fyrir lokun hjá Stuðlum, rétt eins og það er orðið of seint að koma í veg fyrir sumarlokun á Vík. Afleiðingarnar af þessu geta orðið mjög alvarlegar. Að loka á sumrin og lengja biðlista er vond stefna. Sorglegt sinnuleysi.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×