Fótbolti

Allegri af­klæddist á hliðar­línunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Massimiliano Allegri búinn að rífa bindið af sér.
Massimiliano Allegri búinn að rífa bindið af sér. getty/Giuseppe Maffia

Massimiliano Allegri, knattspyrnustjóri Juventus, byrjaði að afklæðast á hliðarlínunni í úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar í gær.

Í uppbótartíma, skömmu áður en dómari leiksins, Fabio Maresca, flautaði hann af, snöggreiddist Allegri og byrjaði að öskra á fjórða dómarann.

Maresca rak Allegri út af og þá byrjaði stjórinn að tína af sér spjarirnar. Hann fór fyrst úr jakkanum og henti honum niður.

Allegri reif svo af sér bindið þegar hann gekk af velli. Loks byrjaði hann að hneppa frá skyrtunni sinni og var orðinn ber niður á maga þegar hann hætti loks.

Ekki er vitað hvað varð til þess að Allegri reiddist svona og byrjaði að fara úr fötunum. Juventus vann samt leikinn, 1-0, með marki Dusans Vlahovic.

Ekki er búist við því að Allegri verði áfram með Juventus á næsta tímabili, þrátt fyrir bikarmeistaratitilinn. Liðið er í 4. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins unnið einn af síðustu tíu deildarleikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×