Innlent

Ó­vinnu­fær eftir harka­legt fall þegar strappur slitnaði

Jón Þór Stefánsson skrifar
Þjálfarinn var að gera æfingu í fimleikahringjum þegar strappur annars þeirra slitnaði.
Þjálfarinn var að gera æfingu í fimleikahringjum þegar strappur annars þeirra slitnaði. Getty

Líkamsræktarþjálfari á rétt á bótum frá tryggingafélaginu Sjóvá vegna slyss sem hann varð fyrir í æfingasal líkamsræktarstöðvar árið 2021 þar sem hann var yfirþjálfari. Það var Héraðsdómur Reykjavíkur sem komst að þessari niðurstöðu.

Maðurinn var að prufukeyra æfingu, sem er gerð í fimleikahringjum sem hanga í svokölluðum ströppum sem voru festir í loftið. Slysið varð þegar annar strappinn slitnaði og þjálfarinn féll harkalega í gólfið. Fram kemur að á meðal gagna málsins hafi verið myndband af atvikinu.

Hann lenti á höfði og herðum sínum og var fluttur á Landspítalann til aðhlynningar í kjölfarið. Hann segist hafa verið algjörlega óvinnufær eftir þetta vegna heilahristings. Í læknisvottorði er tekið undir það, og maðurinn sagður mjög þreyttur í kjölfar slyssins. Hann eigi erfitt með að finna orð og sé mjög ljós- og hljóðfælinn.

Þjálfarinn taldi vinnuveitanda sinn, líkamsræktarstöðina, bera skaðabótaábyrgð en fyrir liggur að Sjóvá sá um ábyrgðartryggingu fyrirtækisins þegar atvikið átti sér stað og því var tryggingafélaginu stefnt. Sjóvá hafnaði tryggingakröfu mannsins og sagði að slysið væri ekki rakið til saknæms vanbúnaðar.

Óforsvaranlegur frágangur

Í dómnum segir að frágangur á ströppunum hafi verið óforsvaranlegur. Það hefði verið auðvelt að hengja strappann upp með öruggari hætti. Jafnframt hefði lítill tilkostnaður farið í það. Einnig kemur fram að strappnum hafði ekki verið skipt út tíu ár, en samkvæmt leiðbeiningum er ráðlagt að gera það á ársfresti.

Þjálfarinn sagði hendingu eina hafa ráðið því að hann hafi lent í slysinu en ekki viðskiptavinur.

Sjóvá vildi meina að það ætti að vera í verkahring þjálfarans að sjá til þess að tæki og búnaður væri í lagi. Þjálfarinn sagði svo ekki vera. Fram kemur að engin sönnun hafi legið fyrir hvað það varðar og að mati dómsins er rétt að tryggingafélagið beri hallan af því.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að saknæm vanræksla Sjóvá eða starfsmanna sem félagið bar ábyrgð á að þessu leyti hafi orðið til þess að slysið hafi orðið. Því beri tryggingafélagið skaðabótaábyrgð. Þar að auki gerir héraðsdómur Sjóvá að greiða tæplega 2,1 milljón króna í málskostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×