Sport

Njarðvík burstaði Keflavík

Njarðvíkingar styrktu stöðu sína á toppi úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í kvöld, þegar liðið burstaði granna sína Keflvíkinga 108-84 í Njarðvík í kvöld. Keflvíkingar byrjuðu betur í leiknum og höfðu ágæta forystu eftir fyrsta leikhlutann, en eftir það tóku heimamenn við sér og skutu granna sína í kaf.

Njarðvík vann 2. og 3. leikhlutana samtals 75-39 og því var staðan í leiknum orðin 91-63 fyrir Njarðvík þegar kom í lokaleikhlutann og fimmti sigur þeirra í röð á Keflvíkingum í vetur því nánast í höfn.

Jeb Ivey var stigahæstur í liði Njarðvíkinga eins og svo oft áður í vetur og skoraði 26 stig, hirti 7 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Guðmundur Jónsson skoraði 20 stig, þar af 17 í þriðja leikhlutanum þegar Njarðvíkurliðið stakk af. Friðrik Stefánsson skoraði 18 stig, hirti 7 fráköst og varði 5 skot og Brenton Birmingham skoraði 17 stig, stal 5 boltum og hitti úr 7 af 9 skotum sínum í leiknum.

Hjá Keflavík var AJ Moye stigahæstur með 25 stig og hirti 15 fráköst, Arnar Freyr Jónsson skoraði 19 stig, hirti 7 fráköst og Magnús Gunnarsson skoraði 12 stig, en hann hitti aðeins úr 2 af 13 skotum sínum í leiknum og þar af 1 af 10 þriggja stiga skotum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×