Erlent

Ellefu slasaðir eftir að flug­tak Boeing 737 mis­tókst

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Boeing 737-300 flugvél í Hangzhou í Kína. Flugvélin á myndinni er ekki sú sem hrapaði í Senegal.
Boeing 737-300 flugvél í Hangzhou í Kína. Flugvélin á myndinni er ekki sú sem hrapaði í Senegal. Getty/Costfoto

Ellefu slösuðust, þar af fjórir alvarlega, þegar Boeing 737-300 flugvél hrapaði við flugtak á Blaise Diagne flugvellinum í Dakar í Senegal. Öll starfsemi á flugvellinum hefur verið stöðvuð vegna slyssins.

Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins að flugvélin, sem rekin er af Air Senegal, hafi verið á leið til Bamako, höfuðborgar Mali. Flugvélin hafi hafnað utan brautar klukkan eitt í nótt að staðartíma. 

Fram kemur í tilkynningu frá flugfélaginu að flugmaðurinn hafi slasast lítillega en flestir farþeganna 78 hafi sloppið ómeiddir. Viðbragðsaðilar hafi verið virkjaðir til að koma farþegunum í öruggt skjól. 

Rannsókn hefur verið hrundið af stað en Boeing hefur ekki tjáð sig um málið. Flugfélagið Transair, sem leigði Air Senegal flugvélina, hefur heldur ekki tjáð sig vegna málsins. Ekkert er vitað um orsök slyssins en undanfarið hefur mikið verið fjallað um öryggismál hjá framleiðandanum. 

Má þar nefna þegar hurð fór af Boeing 737 Max lugvél Alaska Airlines í janúar stuttu eftir flugtak. Fyrirtækið er til rannsóknar í Bandaríkjunum vegna þessa. 

Þá birtist ítarlegt viðtal við Santiago Paredes, fyrrverandi starfsmann Spirit AiroSystems í Kansas, fyrirtæki sem sér Boeing fyrir aðföngum, hjá breska ríkisútvarpinu í dag. Paredes segir í viðtalinu að hann hafi oft fundið galla á þeim íhlutum sem sendir voru úr verksmiðjunni til Boeing.

„Oft vantaði festingar, ítrekað voru íhlutir beyglaðir og stundum vantaði hluta úr þeim,“ segir Paredes. 

Spirit hefur hafnað þessum ásökunum Paredes alfarið en Boeing neitað að tjá sig um málið. 


Tengdar fréttir

Forstjóri Boeing lætur af störfum fyrir árslok

Forstjóri Boeing, Dave Calhoun, mun láta af störfum fyrir árslok. Auk hans lætur af störfum forstjóri áætlunarflugvéladeildar félagsins, Stan Deal. Stephanie Pope tekur við af honum. Steve Mollenkopf hefur verið skipaður formaður stjórnar félagsins. Calhoun tilkynnti um þetta í dag í bréfi til starfsmanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×