Manchester City Englandsmeistari fjórða árið í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Phil Foden skoraði tvívegis fyrir Manchester City er liðið tryggði sér Englandsmeistaratitilinn.
Phil Foden skoraði tvívegis fyrir Manchester City er liðið tryggði sér Englandsmeistaratitilinn. Alex Livesey - Danehouse/Getty Images

Manchester City tryggði sér sinn fjórða Englandsmeistaratitil í röð er liðið vann 3-1 sigur gegn West Ham í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Heimamenn í City byrjuðu af miklum krafti og virtust ekki hafa neinn áhuga á því að hleypa spennu í titilbaráttuna, en Arsenal átti enn möguleika á að stela titlinum fyrir lokaumferðina.

Phil Foden kom City yfir með frábæru skoti strax á annarri mínútu áður en hann tvöfaldaði forystuna með sínu öðru marki eftir tæplega tuttugu mínútna leik.

Gestirnir í West Ham minnkuðu þó muninn á 42. mínútu leiksins með aðeins sínu öðru skoti í leiknum. Þar var á ferðinni Mohammed Kudus með stórglæsilegt mark þegar hjólhestaspyrna hans flaug yfir höfuðið á Stefan Ortega í markinu og í netið.

Staðan í hálfleik því 2-1, Manchester City í vil, og því ljóst að baráttunni um Englandsmeistaratitilinn var ekki lokið.

Heimamenn sóttu þó án afláts í síðari hálfleik og Alphonse Areola hafði í nægu að snúast í marki West Ham. Að lokum varð eitthvað undan að láta og skot Rodri á 59. mínútu söng í netinu við gríðarlegan fögnuð leikmanna og stuðningsmanna City.

Þrátt fyrir þunga sókn City það sem eftir lifði leiks reyndist þetta síðasta mark leiksins. Niðurstaðan varð því 3-1 sigur Manchester City sem stendur því uppi sem enskur meistari, fjórða árið í röð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira