Körfubolti

Indiana Pacers í úr­slit Austurdeildarinnar eftir sigur í odda­leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tyrese Haliburton dró vagninn fyrir Indiana Pacers í kvöld.
Tyrese Haliburton dró vagninn fyrir Indiana Pacers í kvöld. Elsa/Getty Images

Indiana Pacers tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta með 21 stigs sigrri gegn New York Knicks í oddaleik, 109-130.

Fyrir leik kvöldsins hafði heimaliðið unnið í öllum sex leikjum einvígisins. Leikur kvöldsins fór fram í Madison Square Garden í New York og því hafði Knicks yfirhöndina ef eitthvað var að marka það sem áður hafði gerst í einvíginu.

Það voru þó gestirnir í Indiana Pacers sem byrjuðu betur í kvöld og þeir leiddu með tólf stigum að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir náðu svo mest 22 stiga forskoti í öðrum leikhluta, en munurinn á liðunum var þó aðeins 15 stig þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 55-70.

New York-liðið náði góðu áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks, en Indiana náði tökum á leiknum á ný og jók forskot sitt upp í 17 stig fyrir lokaleikhlutann. Það bil náðu heimamenn aldrei að brúa og niðurstaðan varð 21 stigs sigur Indiana Pacers, 109-130.

Indiana Pacers er þar með komið í úrslit Austurdeildar NBA-deildarinnar þar sem liðið mætir Boston Celtics. Liðið sem verður fyrra til að vinna fjóra leiki berst svo um NBA-meistaratitilinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×