Formúla 1

Stal senunni en vill meira

Aron Guðmundsson skrifar
Bearman um síðastliðna helgi í Sádi-Arabíu með sjöfalda heimsmeistaranum Lewis Hamilton sem mun aka fyrir Ferrari á næsta tímabili
Bearman um síðastliðna helgi í Sádi-Arabíu með sjöfalda heimsmeistaranum Lewis Hamilton sem mun aka fyrir Ferrari á næsta tímabili Vísir/Getty

Þrátt fyrir að hafa ekki borið sigur úr býtum í Sádi-Arabíu kapp­aksturinum um síðast­liðna helgi er ó­hætt að ungstirnið Oli­ver Bear­man hafi komið, séð og sigrað á sinni fyrstu keppnis­helgi í For­múlu 1.

Með mjög skömmum fyrir­vara, eftir að Car­los Sainz annar af öku­mönnum Ferrari þurfti að fara í bráða­að­gerð vegna botn­langa­bólgu, settist Bear­man undir stýri í bíl ítalska risans og sýndi mikla yfir­vegun og færni á einni af mest krefjandi brautum hvers árs í For­múlu 1 í Sádi-Arabíu.

Hinn 18 ára gamli Bear­man, sem keppir einnig í For­múlu 2 móta­röðinni sam­hliða því að vera einn af vara­öku­mönnum Ferrari í For­múlu 1, gerði gott mót í sínum fyrstu tíma­tökum og rétt missti af sæti í loka­hluta þeirra.

Hann ræsti í ellefta sæti þegar í kapp­aksturinn var komið og steig varla feil­spor í keppninni sjálfri þar sem að hann endaði í sjöunda sæti og vann inn sín fyrstu stig á For­múlu 1 ferlinum.

Frammi­staða sem varpar á honum kast­ljósinu og er ljóst að þarna er um að ræða öku­mann sem hafa þarf góðar gætur á í fram­tíðinni í For­múlu 1. Hafandi fengið smjör­þefinn af móta­röðinni, vill Bear­man bara meira og það fljótt.

Bretinn ungi hefur auga á öðru af öku­manns­sætum hjá liði Haas, sem er eins konar systur­lið Ferrari, fyrir næsta tíma­bil en nú þegar hefur Bear­man tekið þátt í æfingum og prófunum með liðinu.

„Ég hef kynnst liðinu að­eins í gegnum þessar æfingar og ég hlakka til að byggja upp sam­bönd mín við liðs­menn þess í fram­haldinu og að fá vonandi fleiri tæki­færi í bílnum innan brautar,“ segir Bear­man í við­tali við Sky Sports.“ Með því opnast vonandi tæki­færi á því að fá varan­legt sæti í For­múlu 1 fyrir tíma­bilið 2025. Það yrði frá­bært.“

Nú­verandi öku­menn Haas-liðsins, reynslu­boltarnir Kevin Magnus­sen og Nico Hul­ken­berg, renna báðir út á samningi hjá liðinu eftir yfir­standandi tíma­bil. Takist Bear­man að heilla for­ráða­menn liðsins er ljóst að mögu­leikar hans á sæti fyrir hann í For­múlu 1 á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×