Neytendur

Vara ein­dregið við frum­varpi sem leiði til verð­bólgu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR sem er meðal fjögurra samtaka sem vara við frumvarpinu.
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR sem er meðal fjögurra samtaka sem vara við frumvarpinu. Stöð 2/Arnar

VR, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og Félag atvinnurekenda (FA) vara eindregið við samþykkt frumvarps um undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum, sem nú liggur fyrir Alþingi.

Frumvarpið, sem má kynna sér hér, er á dagskrá fundar Alþingis fyrir hádegi.

Samtökin telja að samþykkt frumvarpsins myndi stórskaða hagsmuni neytenda, launþega og verslunar og vega að forsendum nýgerðra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Samtökin taka afdráttarlaust undir þau sjónarmið, sem eru reifuð í bréfi Samkeppniseftirlitsins til atvinnuveganefndar Alþingis.

Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna sem vara við frumvarpinu.Vísir/Ívar Fannar

„Drög að frumvarpi matvælaráðherra um undanþágur kjötafurðastöðva í eigu frumframleiðenda, þ.e. bænda, frá samkeppnislögum, voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og frumvarpið síðan lagt fram lítið breytt á Alþingi. Meirihluti atvinnuveganefndar hefur nú lagt fram „breytingartillögur“ sem í raun eru nýtt frumvarp, sem gengur miklu lengra en frumvarp ráðherra og er allt annað plagg en umsagnaraðilar tóku afstöðu til í samráðsferlinu,“ segir í tilkynningunni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, er hugsi yfir frumvarpinu.vísir/vilhelm

Samtökin taka undir mat Samkeppniseftirlitsins á áhrifum hins nýja frumvarps. Að mati samtakanna fjögurra felur það m.a. í sér:

  • Kjötafurðastöðvum verður heimilt að sameinast án takmarkana. Þessi heimild var ekki í upphaflegu frumvarpi og engin dæmi eru slíks í nágrannalöndunum.
  • Afurðastöðvum verður heimilað að hafa með sér hvers konar samráð um verkaskiptingu, verðlagningu eða aðra þætti starfseminnar, sem væri ólögmætt og refsivert í öðrum atvinnugreinum.
  • Undanþágan tekur ekki lengur eingöngu til afurðastöðva undir stjórn bænda eins og dæmi eru um í nágrannalöndunum. Stórfyrirtækjum, sem ekki eru í eigu eða undir stjórn bænda, er veitt víðtæk undanþága frá samkeppnislögum.
  • Undanþágurnar taka til kjötafurðastöðva í öllum búgreinum, án tillits til stöðu þeirra. Framlagning hins upphaflega frumvarps var réttlætt með erfiðri stöðu í sláturiðnaði, einkum sauðfjár- og stórgripaslátrun. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að afurðastöðvar í öllum búgreinum sameinist, þess vegna í eina, eða hafi með sér samkeppnishamlandi samstarf.
  • Engar hömlur eru á að afurðastöðvar fyrirtækja sem hafa skilað ágætri afkomu, t.d. Matfugls og Ali, Stjörnugríss, Kaupfélags Skagfirðinga og Sláturfélags Suðurlands, ásamt öðrum fyrirtækjum sameinist í eitt einokunarfélag, með svipuðum hætti og gerðist í mjólkuriðnaðinum er honum var veitt undanþága frá samkeppnislögum. Munurinn er þó sá að varnir neytenda eru engar og sameinaðar afurðastöðvar ráða verðlagningu sinni alfarið sjálfar, án aðhalds samkeppninnar eða opinberra verðlagsákvarðana.
  • Ákvæði um eftirlit Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum bann við óheimilum samningum eða ákvörðunum framleiðenda, sem voru í upphaflegu frumvarpi, eru felld niður. Ný ákvæði um aðhald samkeppnisyfirvalda eru veik og illa útfærð.

Samtökin fjögur taka undir það mat Samkeppniseftirlitsins að líkleg afleiðing samþykktar frumvarpsins yrði verðhækkun á kjötvörum og þar með aukin verðbólga. 

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu sem vara við frumvarpinu.

„Það væri algjörlega ótækt ef fyrsta lagabreyting stjórnvalda eftir undirritun kjarasamninga og útgáfu yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar vegna þeirra yrði samþykkt þessa frumvarps, sem gengur gegn hagsmunum neytenda, launþega og verslunar. Samtökin krefjast þess að frumvarpið verði dregið til baka,“ segir í tilkynningu til fjölmiðla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×