Neytendur

Kakó­verð aldrei hærra og verð­hækkanir á súkku­laði rétt að byrja

Lovísa Arnardóttir skrifar
Því hærri sem kakóprósentan er í súkkulaðinu því meiri er hækkunin. Auðjón hjá Nóa Síríus óttast að hækkanirnar séu rétt að byrja.
Því hærri sem kakóprósentan er í súkkulaðinu því meiri er hækkunin. Auðjón hjá Nóa Síríus óttast að hækkanirnar séu rétt að byrja. Vísir/Einar og Aðsend

Verð á suðusúkkulaði frá Nóa Síríus hækkaði um 70 krónur á einum mánuði í Bónus eða úr 359 krónum í 429 krónur. Heimsmarkaðsverð á kakóbaunum hefur aldrei verið hærra. Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa Síríus, segir neytendur geta átt von á frekari hækkunum.

„Fólk má búa sig undir það að tegundir muni hver af annarri hækka og þegar líður á árið og á næsta ári má búast við verulegum hækkunum,“ segir hann og að hækkunin verði meiri eftir því sem kakóprósentan sé meiri.

„Við tókum hækkunina inn en 70 prósent súkkulaði hækkaði meira en það sem er með minna af kakóbaunum,“ segir Auðjón um það hvort að hækkunin hafi verið sú sama á allar þeirra vörur.

Súkkulaði er munaðarvara minnir Auðjón á. Vísir/Einar

Auðjón segir verslanir með frjálsa verðmerkingu og því komi hækkanirnar ólíkt fram eftir ólíkum verslunum. Einhverjar verslanir hafi tekið hækkunina á sig að einhverju leyti á meðan aðrar gera það ekki.

Hann segir sem dæmi páskaegg hafa hækkað um níu prósent á milli ára hjá þeim.

Íslenskt súkkulaði hækkað í verði

Í nýrri verðlagskönnun frá ASÍ á súkkulaði, sem kom út í gær, kemur fram að verð á súkkulaði hefur almennt hækkað víða miðað við verð sem voru á því í janúar. Misjafnt er eftir framleiðendum og verslunum hversu mikið það hefur hækkað. Samkvæmt niðurstöðum ASÍ hækkar verð á súkkulaði frá Nóa Síríus mest en frá Freyju minnst. Í einhverjum tilfellum hefur verið lækkað.

Þar kemur einnig fram að súkkulaðiplötur hafi vegið þyngst í hækkunum Nóa Síríus. Þær hafi margar hækkað um 15 til 25 prósent í Bónus. Sem dæmi hafi 46 gramma lakkrísrjómasúkkulaði hækkað um 25 prósent frá því í janúar og súkkulaðiplata með hnetum og rúsínum hafi hækkað um 19 prósent. Í Krónunni hækkuðu þrjár rjómasúkkulaðiplötur Nóa Síríus, það er hrein, hnetu&rúsínu og karamellu&salt um 19 prósent.

Lindu mjólkursúkkulaðiplata hækkaði um 12 prósent í Krónunni og Lindu suðusúkkulaði um 10 prósent. Hins vegar stóð verð á Freyju mjólkursúkkulaði með bombum í stað í Bónus.

„Þetta eru ótrúlegir tímar,“ segir Auðjón en heimsmarkaðsverð hefur rokið upp síðustu vikur vegna uppskerubrests í bæði Gana og á Fílabeinsströndinni á síðasta ári. Þessi lönd eru stærstu ræktendur kakós í heiminum. Þar sé að auki ótryggt stjórnmálaástand sem hjálpi ekki til.

Misjafnt er hversu mikið súkkulaðifyrirtækin hafa hækkað vörurnar sínar. Vísir/Einar

„Það er ekki bara það að það er minni uppskera, heldur er hún lélegri. Hvert kakóaldin sem inniheldur að jafnaði um 20 til 22 baunir innihélt í síðustu uppskeru aðeins tíu til tólf baunir. Þannig það eru ekki bara færri aldin, heldur gáfu þau minna af sér,“ segir Auðjón og að þetta gerist á sama tíma og að eftirspurn eftir súkkulaði sé að aukast í heiminum.

Þar telji mest aukin eftirspurn í Asíu sem sé svo fjölmenn heimsálfa að hvert prósent þar telur verulega.

Uppskerubrestur í Gana og á Fílabeinsströndinni

Í erlendum miðlum hefur mikið verið fjallað um hækkun á verði kakós síðustu vikur. Í grein á vef Financial Times í vikunni kom til dæmis fram að verð á einu tonni af kakó hefði í fyrsta sinn farið yfir tíu þúsund dollara eða því sem samsvarar um 1,3 milljónum íslenskra króna. Það er tvöfalt meira en verðið var fyrir tveimur mánuðum.

Bóndi í bænum Adzope á Fílabeinsströndinni vinnur með kakóbaunir sem hafa verið ræktaðar þar. Vísir/EPA

Þar segir að slæmt veðurfar og sjúkdómar hafi haft slæmt áhrif á uppskeru í bæði Gana og Fílabeinsströndinni en þar séu framleiddar tveir þriðju af öllum kakóbaunum heimsins. Þá kemur einnig fram í fréttinni að í áratugi hafi verið á kakóbaunum verið svo lágt að bændur í Vestur-Afríku hafi ekki getað fjárfest í ræktunarjörðum sínum. Afleiðingin er sú að plönturnar eru gamlar og viðkvæmari fyrir sjúkdómum og veðri. Þá er einnig fjallað um það í frétt á vef BBC að vandamálið sé tengt loftslagsbreytingum en öfgar í hitafari eru líklegri. Sem dæmi hefur hitinn reglulega farið yfir 40 stig í bæði Gana og Fílabeinsströndinni sem geri þurrka líklegri.

Verðið aldrei verið hærra

Þess vegna sé skortur á kakóbaunum þriðja árið í röð sem keyri verðið upp. Í frétt Financial Times segir að fyrir tveimur mánuðum hafi söluverð í New York á kakóbaunum verið undir 5000 dollurum á tonn og fyrir ári síðan hafi það verið um 3000 dollarar á tonn. Stórir framleiðendur eins og Hershey og Cadbury hafa báðir varað við því að þeir muni þurfa að hækka verð á sínum vörum í kjölfarið.

Hækkun á verði á kakó á einu ári. Myndin er af síðu Business Insider.Skjáskot/Business Insider

„Á nærri hverjum degi er slegið nýtt met og línuritið er orðið nánast bein lína,“ segir Auðjón og að þetta skapi miklar áskoranir fyrir fyrirtæki eins og Nóa Síríus. Þau breyti ekki uppskriftum og hráefnum og því hafi þetta bein áhrif á kostnaðarverð.

„Við erum enn á þeim stað að þetta er bara byrjunin því nú hafa menn mestar áhyggjur af því sem gerist á næsta ári. Það er margir búnir að læsa kakóverð út árið eða langt inn í haustið en svo tekur við eitthvað breytt ástand í haust. Þetta skapar mikla óvissu,“ segir Auðjón.

Hann segir það góða við þetta að eitt súkkulaðistykki sé í raun ekki mjög dýrt en að þessari hækkanir séu sannarlega mjög ýktar.

Minni framleiðendur geti gefist upp

Auðjón segir að Nói Síríus hafi ekki hækkað verðið hjá sér fyrr en hækkunin hafi verið að hafa áhrif á hráefnisverðið hjá þeim.

„Við sáum að þegar Úkraínustríðið braust út rauk verð á korni upp, en það var ekkert í líkingu við þetta,“ segir Auðjón og að hækkunin og þetta ástand geti haft verri áhrif á minni framleiðendur en stærri. Minni framleiðendur eigi erfiðara með að þrauka í gegnum svona ástand.

„Það er alveg líklegt að einhverjir gefist upp. Við erum heppnir og erum með stóran birgja í kakóhráefnum. Við kaupum vottað kakó og erum í ákveðnum forgangi,“ segir hann og að allt þeirra kakó sé frá Fílabeinsströndinni.

Súkkulaði er munaðarvara og Auðjón segir að það megi ekki gleyma því. Vísir/EPA

Auðjón segir framleiðendur um allan heim nú reyna að finna leiðir til að takast á við þetta. Einhverjir hækki verð á meðan aðrir breyti uppskriftum eða minnki súkkulaðistykkin eða súkkulaðieggin sem eru framleidd.

Þið hafið ekki minnkað súkkulaðistykkin?

„Nei, en við þurfum auðvitað að skoða hvað við gerum á næsta ári.“

En þetta er munaðarvara?

„Já, og það má aldrei gleyma því. Þetta er munaðarvara, ekki nauðsynjavara. Þetta er það sem fólk leyfir sér. Fólk er að kaupa sér lúxusvöru á tiltölulega góðu verði. Það er þannig ennþá þótt svo að hækkanirnar hafi komið í gegn.“


Tengdar fréttir

Súkku­laði frá Nóa hækkar mest á meðan Freyja lækkar

Verð á súkkulaði hefur víða hækkað miðað við janúarmánuð, samkvæmt niðurstöðum verðlagseftirlits ASÍ. Verð á súkkulaði frá Nóa Síríus hefur hækkað mest, en vörur frá Freyju hafa hækkað minnst í verði. Sumar þeirra hafa raunar lækkað í verði á tímabilinu.

Fjandinn laus þegar máls­hættina vantar

Framkvæmdastjóri hjá Nóa Síríus segir páskaeggjavertíðinni senn lokið hjá fyrirtækinu, og að síðustu egg fari brátt úr húsi á lager fyrirtækisins. Að mörgu þurfi að huga við gerð eggjanna, en mikilvægastir séu málshættirnir. Fjarvera þeirra í eggjum landsmanna geti jafnvel eyðilagt hátíðarnar fyrir einhverjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×