Fótbolti

Fótboltamaður skotinn til bana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Fleurs lék með suðurafríska landsliðinu á síðustu Ólympíuleikum.
Luke Fleurs lék með suðurafríska landsliðinu á síðustu Ólympíuleikum. @KaizerChiefs

Suðurafríski knattspyrnumaðurinn Luke Fleurs lést í gærkvöldi eftir að hann var skotinn í bílaráni í nágrenni við Jóhannesarborg.

Morðið var framið á bensínstöð í Florida sem er útborg Jóhannesarborgar.

Hinn 24 ára gamli Fleurs var að bíða eftir aðstoð þegar vopnaðir menn komu að og skipuðu honum að fara út úr bílnum.

Einn af byssumönnunum flúði af staðnum á bíl Fleurs.

„Byssumennirnir ógnuðu honum með byssu og þvinguðu hann út úr bílnum. Þeir skutu hann síðan einu sinni í efri hluta líkamans,“ sagði talsmaður lögreglunnar við fjölmiðla í Suður Afríku.

Fleurs spilaði með liði Kaizer Chiefs en hann var varnarmaður. Hann kom til liðsins á síðasta ári en spilaði áður fyrir SuperSport United.

Félagið minnist hans á miðlum sínum og segir að Fleurs hafi verið traustur varnarmaður með góða tækni.

Hann lék með landsliði Suður Afríku á Ólympíuleikunum í Tókýó sumarið 2021.

Fótboltáhugafólk í Suður Afríku og víðar hefur einnig syrgt hann á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×