Neytendur

Enn ekkert að frétta af fé­lagi sem þúsundir Ís­lendinga eiga kröfu á

Árni Sæberg skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt Seðlabankann hafa áhyggjur af Novis.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt Seðlabankann hafa áhyggjur af Novis. Vísir/Arnar

Seðlabanki Íslands hefur vakið athygli á því að slitastjóri hefur ekki enn verið skipaður yfir slóvakíska vátryggingafélaginu Novis, sem var svipt starfsleyfi fyrir tíu mánuðum. Sex til sjö þúsund Íslendingar hafa keypt tryggingarafurðir Novis og mikil óvissa ríkir um stöðu þeirra.

Greint var frá því í byrjun júní í fyrra að slóvakíski seðlabankinn hefði afturkallað leyfi Novis og farið fram á það að félaginu yrði skipaður slitastjóri. Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri sagði þá að algjör óvissa væri uppi um stöðu tryggingartaka hér á landi.

Seðlabankinn sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem vakin er athygli á þeirri óvenjulegu stöðu sem uppi er í málinu. Þrátt fyrir að yfir tíu mánuðir séu liðnir frá því að starfsleyfi félagsins var afturkallað hafi slitastjóri enn ekki verið skipaður yfir félaginu.

Málaferli tefja málið

Í tilkynningunni segir að Seðlabanki Slóvakíu, NBS, hafi birt fréttatilkynningu þann 21. mars síðastliðinn um stöðu málsins. Í henni komi fram að NBS telji að skipan slitastjóra sé nauðsynlegt skref til að tryggja hagsmuni vátryggingartaka, en að ekki sé hægt að segja til um hvenær dómstólar komist að endanlegri niðurstöðu um skipan slitastjóra í ljósi annarra dómsmála sem rekin eru í tengslum við afturköllunina. 

Þar á meðal sé dómsmál sem Novis hefur höfðað þar sem félagið krefst ógildingar á ákvörðun NBS um afturköllunina. Í fréttatilkynningu NBS komi fram að yfirstandandi dómsmál hafi ekki áhrif á ákvörðun bankans um afturköllun starfsleyfisins og að hún standi enn.

Staðan skýrist ekki fyrr en slitastjóri verður skipaður

Seðlabanki Íslands bendir á að heimildir NBS til að hafa eftirlit með NOVIS séu takmarkaðar nú þegar starfsleyfi félagsins hefur verið afturkallað. Almennt sé gert ráð fyrir að slitastjóri sé skipaður í beinu framhaldi af afturköllun starfsleyfis, sem meðal annars tekur yfir stjórn félagsins.

Staða þeirra sem hafa keypt vátryggingar Novis sé því töluverðri óvissu háð og muni ekki skýrast fyrr en slitastjóri hefur verið skipaður. Gera þurfi ráð fyrir þeim möguleika að það geti tafist enn frekar.

„Í ljósi þeirrar fordæmalausu stöðu sem uppi er hvetur Seðlabanki Íslands vátryggingartaka hjá Novis til að fara yfir skilmála samninga sinna og kynna sér þau úrræði sem þeim standa til boða. Til dæmis er boðið upp á að taka hlé frá greiðslu iðgjalda, leysa hluta inneignar út eða leysa út alla inneign sem til staðar er með því að segja upp vátryggingarsamningi.“

Þar sem um mismunandi vátryggingarsamninga er að ræða megi vera ljóst að framangreind úrræði henta vátryggingartökum misvel. Ákveði vátryggingartakar að notfæra sér úrræðin sé jafnframt mikilvægt að hafa í huga að ákvæði skilmála vátryggingarsamninga kveða á um kostnað og gjöld sem dragast frá inneign vátryggingartaka.

Seðlabankinn fylgist áfram náið með málum tengd Novis og muni veita uppfærðar upplýsingar eftir því sem framvinda þeirra gefur tilefni til. Seðlabanki Íslands áréttar þó að hann sé ekki í stöðu til að veita vátryggingartökum ráðgjöf um einstaka samninga og/eða hvort rétt sé að nýta framangreind úrræði.


Tengdar fréttir

Lög­banns­kröfu NO­VIS gegn Seðla­bankanum hafnað

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í kröfu slóvakíska vátryggingafélagsins NOVIS um að lögbann yrði lagt á að Seðlabanki Íslands birti grein um sölubann á fyrirtækið á vefsíðu sinni. Seðlabankinn var ekki talinn hafa farið út fyrir heimildir sínar sem eftirlitsaðili á vátryggingamarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×