Körfubolti

Liðsfélagarnir í sumar­fríi en hann að vinna tólf tíma á dag á Ís­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason hefur verið frábær með íslenska landsliðinu undanfarin ár. Hér treður hann boltanum í körfuna á móti Ítölum.
Tryggvi Snær Hlinason hefur verið frábær með íslenska landsliðinu undanfarin ár. Hér treður hann boltanum í körfuna á móti Ítölum. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Hér fyrir neðan er hægt að sjá nýju heimildarmyndina um körfuboltastjörnuna Tryggva Snæ Hlinason og sumarið hans í Svartárkoti.

Spænska körfuboltadeildin frumsýndi á dögunum þessu nýju heimildarmynd um íslenska landsliðsmiðherjann sem á aðeins örfáum árum fór frá því að keppa í körfubolta í fyrsta sinn í það spila í Meistaradeildinni í körfubolta.

Uppkoma Tryggva hefur vakið mikla athygli og ekki bara hér á Íslandi.

Þessi 216 sentimetra og 26 ára gamli körfuboltamaður hefur haldið velli í bestu körfuboltadeild Evrópu og er á góðri leið með að vera sá Íslendingur sem hefur spilað þar lengst samfellt.

Sjö ár á Spáni

Tryggvi hefur nú auk þess að vera algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu spilað sem atvinnumaður á Spáni í að verða sjö ár. Spánverjarnir voru sérstaklega áhugasamir um að vita meira um bakland íslenska körfuboltamannsins.

Tryggvi kemur frá Svartárkot í Bárðardal sem er efsti bærinn í dalnum.

Heimildarmyndin heitir Kindur og fjallar um heimsókn spænska körfuboltamannsins Rafa Martínez til Tryggva og fjölskyldu hans í Svartárkoti. Tryggvi var sérstakur heiðursgestur þegar myndin var frumsýnd í bíósal í Bilbao fyrir helgi þar sem Tryggvi spilar nú með heimaliðinu.

Lofaði Tryggva að heimsækja hann

Martínez er nýbúinn að leggja skóna á hilluna eftir langan og farsælan feril. Þegar Tryggvi sagði honum að hann væri fjárbóndi á sumrin þá lofaði Martínez honum að koma í heimsókn þegar skórnir væru komnir upp á hillu.

Martínez stóð við stóru orðin síðasta sumar og með honum komu myndatökumenn til að festa allt á filmu.

Þar má sjá Tryggva sýna Martínez lífið í Bárðardalnum. Hann fer með hann í fjárhúsið, á hestbak og út að veiða á vatninu. Tryggvi segir Martínez frá lífi sínu í sveitinni og sá spænski fær að kynnast hlutum sem hann hefur aldrei upplifað áður.

Nóg af vinnu í sumarfríinu

Tryggvi segir meðal annars í myndinni að meðan að liðsfélagarnir hans á Spáni séu í afslöppun í sumarfríinu sínu þá sé hann mættur norður í Svartárkot til að vinna langan vinnudag.

„Hvað heldur þú að liðsfélagarnir mínir séu að gera núna? Ég ímynda mér það að þeir séu á ströndinni, að vinna í sínum leik eða bara að slaka á. Að gera eitthvað í rólegheitunum. Ég er aftur á móti hér að vinna tólf til þrettán tíma á dag,“ sagði Tryggvi.

Tryggvi segir líka frá því hvernig fjölskyldan tók því þegar hann sagði frá því að hann væri að yfirgefa bóndabæinn til að spila körfubolta á Spáni.

Hér fyrir neðan má sjá þessa skemmtilegu heimildarmynd. Tryggvi er orðinn altalandi á spænsku og myndin er því á spænsku en í útgáfunni hér fyrir neðan þá er enskur texti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×