Erlent

Fyrsta opin­bera mál­verkið af konunginum Karli III af­hjúpað í gær

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Listamaðurinn og konungurinn við afhjúpun verksins.
Listamaðurinn og konungurinn við afhjúpun verksins. AP/Aaron Chown

Fyrsta opinbera málverkið af Karli III eftir að hann var krýndur konungur var afhjúpað í Buckingham-höll í gær. Verkið er eftir Jonathan Yeo og hlýtur að teljast fremur óhefðbundið, miðað við önnur verk af kóngafólki sem hangir í höllum og söfnum.

Verkið var pantað árið 2020, af því tilefni að 50 ár voru liðin frá því að Karl varð meðlimur Drapers Company, sem er eitt af hinum tólf fornu gildum eða fagfélögum sem voru stofnuð á miðöldum.

Til gamans má geta að fullt nafn gildisins er The Master and Wardens and Brethren and Sisters of the Guild or Fraternity of the Blessed Mary the Virgin of the Mystery of Drapers of the City of London.

Á myndinni er Karl klæddur búningi velska varðliðsins og verkið allt, fyrir utan andlit konungsins, eins og hulið rauð-bleikri slikju. Þá flögrar fiðrildi yfir hægri öxl Karls, sem er sagt eiga að tákna bæði umbreytingu og endurfæðingu og ástríðu konungins fyrir umhverfismálum.

Konungurinn sat fyrir fjórum sinnum á meðan Yeo vann að verkinu, klukkustund í senn.

Að sögn Yeo var fiðrildið hugmynd Karls, sem kom fram þegar þeir ræddu hvernig skólabörn myndu þekkja konunginn á verkinu eftir 200 ár.

„Já, þú náðir honum,“ er Camilla drottning sögð hafa sagt um verkið.

Sjálfur fékk Karl að sjá það áður en listamaðurinn lagði á það lokahönd.

„Sterkur liturinn kom honum svolítið á óvart en hann virtist brosa til samþykkis,“ segir Yeo. Það hafi verið markmið hans að mála einstakt og persónulegt verk og slíta tengslið við fortíðina.

Frétt BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×