Körfubolti

Doncic rankaði við sér og Dallas einum sigri frá úr­slitum Vestursins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic og félagar í Dallas Mavericks þurfa einn sigur í viðbót til að komast í úrslit Vesturdeildarinnar.
Luka Doncic og félagar í Dallas Mavericks þurfa einn sigur í viðbót til að komast í úrslit Vesturdeildarinnar. getty/Joshua Gateley

Eftir að hafa átt misjafna leiki í einvíginu gegn Oklahoma City Thunder átti Luka Doncic, aðalstjarna Dallas Mavericks, stórleik í nótt. Dallas vann þá 92-104 sigur og er aðeins einum sigri frá því að komast í úrslit Vesturdeildar NBA.

Í fyrstu fjórum leikjunum gegn Oklahoma var Doncic aðeins með 22 stig að meðaltali og 39 prósent skotnýtingu. Í leiknum í nótt var Slóveninn hins vegar með þrefalda tvennu; 31 stig, tíu fráköst og ellefu stoðsendingar.

Derrick Jones átti einnig flottan leik, hitti úr sjö af níu skotum sínum og skoraði nítján stig. Vörn Dallas var sterk í leiknum í nótt en OKC hitti til að mynda aðeins úr fjórðungi þriggja stiga skota sinna.

Shai Gilgeuos-Alexander skoraði þrjátíu stig og gaf átta stoðsendingar fyrir Oklahoma sem er komið með bakið upp að veggnum fræga.

Boston Celtics tryggði sér sæti í úrslitum Austurdeildarinnar þriðja árið í röð með sigri á Cleveland Cavaliers á heimavelli, 113-98. Boston vann einvígið, 4-1.

Jayson Tatum skoraði 25 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar fyrir Boston og Al Horford sýndi að enn lifir í gömlum glæðum með því að skora 22 stig og taka fimmtán fráköst. Hann hitti einnig úr sex þriggja stiga skotum en Boston skoraði í heildina nítján þrista í leiknum.

Donovan Mitchell var fjarri góðu gamni hjá Cleveland eins og í fjórða leiknum en hann glímir við kálfameiðsli. Evan Mobley skoraði 33 stig fyrir Cavs og Marcus Morris var með 25 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×