Fótbolti

Kane skoraði en Bayern tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane er kominn með 36 deildarmörk en tap í dag þýðir að annað sætið er lika í hættu hjá Bayern.
Harry Kane er kominn með 36 deildarmörk en tap í dag þýðir að annað sætið er lika í hættu hjá Bayern. AP/Tom Weller

Stuttgart vann 3-1 sigur á Bayern München í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag en þetta var síðasti leikur Bæjara fyrir seinni undanúrslitaleikinn í Meistaradeildinni á móti Real Madrid.

Bayern er í öðru sæti deildarinnar með 69 stig og með tveggja stiga forskot á Stuttgart þegar tveir leikir eru eftir. Bayer Leverkusen er búið að tryggja sér þýska titilinn en liðið er með 81 stig.

Bayern gerði 2-2 jafntefli við Real Madrid í vikunni en seinni leikurinn er spilaður á Spáni á miðvikudaginn kemur. Þetta var ekki sannfærandi frammistaða hjá liðinu í dag í aðdraganda þess leiks.

Leonidas Stergiou kom Stuttgart í 1-0 á 29. mínútu en Harry Kane jafnaði úr vítaspyrnu á 37. mínútu. Eftir þetta mark er Kane fimm mörkum frá því að jafna markamet Robert Lewandowski frá 2021 en það er 41 deildarmark á einni leiktíð.

Kane er með 36 mörk og 8 stoðsendingar á sínu fyrsta tímabili í þýsku deildinni.

Varamennirnir Woo-Yeong Jeong (83. mínúta) og Silas Katompa Mvumpa (90.+3 mínúta) tryggðu Stuttgart sigurinn. Stuttgart gæti tekið annað sætið af Bayern sem hefði verið mun fjarlægari draumur ef Bayern hefði unnið þá í dag.

Dortmund er einnig að undirbúa sig fyrir seinni undanúrslitaleik sinn í Meistaradeildinni en liðið vann 5-1 sigur á Augsburg í dag.

Youssoufa Moukoko skoraði tvö mörk en hin mörkin skoruðu Donyell Malen, Felix Nmecha og Marco Reus. Reus átti einnig tvær stoðsendingar.

Dortmund vann 1-0 sigur á Paris Saint-Germain í fyrri undanúrslitaleik liðanna en sá síðari verður í París á þriðjudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×