Lífið

Heitustu trendin fyrir sumarið 2024

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Lífið á Vísi ræddi við fjölbreyttan hóp álitsgjafa fyrir heitustu sumartrendin í ár.
Lífið á Vísi ræddi við fjölbreyttan hóp álitsgjafa fyrir heitustu sumartrendin í ár. SAMSETT

Sundlaugar landsins fyllast, umferðin minnkar og þegar að sólin lætur sjá sig færist bros yfir landsmenn. Sumarið er komið í allri sinni dýrð hérlendis óháð fjölbreyttu veðurfari og mismiklu sumarfríi. Þessi árstíð einkennist gjarnan af tilhlökkun og gleði en samhliða því þróast hin ýmsu sumartrend. Lífið á Vísi ræddi við fjölbreyttan hóp álitsgjafa um heitustu trendin í sumar, hvort sem það er í fjallgöngum, grillmat, hárgreiðslu eða öðru.

Sumardrykkir

Sævar Helgi Örnólfsson, barþjónn og framkvæmdarstjóri Tipsy:

Sævar Helgi starfar hjá kokteilabarnum Tipsy.Aðsend

„Tequila heldur áfram að byrja að vera í uppáhaldi hjá fleirum og fleirum svo maður sér það að hin klassíska Margarita verður stöðugt vinsælli meðal fólks.

Það skiptir auðvitað öllu málið að Margaritan sé gerð rétt og með góðu Tequila.

Hér er uppskrift af góðri og einfaldri Margaritu þar sem þú þarft ekki að búa til neitt heimagert:

Margarita

45ml Tequila að eigin vali

15ml Cointreau

30ml lime safi

15ml agave síróp

Lime sneið sem skraut

Hristist ofan í kalt glas og auðvitað má ekki gleyma að setja salt á glasið.

Sævar mælir með Margaritunni.Getty

Þau tequila sem ég mæli með í margaritu eru Don Julio, Espolon og Tres Tonos.

Ég sjálfur er þó mikið fyrir að nota Mezcal í margarituna mína í staðinn fyrir Tequila. Mezcal er oft kallað stóri bróðir Tequila sem er einnig Agave spíri eins og Tequila. Mezcal er búið til með annarri aðferð þar sem Agave plantan er grafin í jörðina og reykt með sjóðandi heitum kolum en fyrir Tequila þá er Agave plantan bökuð í stórum gufuofni í 1 - 2 sólahringa. Mér finnst einmitt þetta reykta bragð af Mezcal svo rosalega gott í svona ferskum kokteil.

Annar Tequila kokteill sem ég sé einnig Íslendinga vera byrja að drekka meira er hinn sumarlegi kokteill Paloma en hann er einmitt líka mjög ferskur og sumarlegur og það sakar ekki hvað hann er fallega bleikur.

Þar finnst mér einnig gott að setja Mezcal í stað Tequila og búa þar til Mezcal Paloma.

Svo er svo rosalega auðvelt að gera óáfenga útgáfu af Paloma fyrir þau sem vilja fá sér einn óáfengan kokteil.“

Paloma

45 ml Tequila

30 ml lime safi

20 ml agave síróp

Toppaður með greipaldin gosi

Greipaldin sneið sem skraut

Hristur ofan í hátt glas og toppaður með greipaldin gosi.

Aftur þá má ekki gleyma salti á glasinu!

Paloma drykkurinn er í uppáhaldi hjá Sævari Helga. Getty

Óáfengur Paloma

45 ml lime safi

30 ml agave síróp

Toppaður með greipaldin gosi

Greipaldin sneið sem skraut

Hristur ofan í hátt glas og toppaður með greipaldin gosi.

Sumarhreyfing

Sara Snædís, heilsuþjálfari og eigandi WithSara:

Sara leggur áherslu á heildræna heilsu. Aðsend

„Að mínu mati verða trendin þetta sumarið þau að fólk gefi stuttum æfingum meira vægi en áður, að það setji sér raunhæf hreyfingarmarkmið fyrir sumartímann og svo að sjálfsögðu bara útvera og finna æfingar sem hægt er að gera utandyra.“

Raunhæf markmið yfir sumartímann

„Að sýna sjálfum sér mildi og ekki setja sér óraunhæf markmið yfir sumartímann er eitthvað sem ég held að fólk muni tileinka sér. Það er ekkert verra en að vera með stöðugt samviskubit í fríinu af því þú ert ekki að viðhalda sömu rútínu og áður. 

Rútínan mun að öllum líkindum eitthvað breytast yfir sumartímann og þá skiptir máli að aðlagast nýrri rútínu sem er sveigjanlegri. Að hafa viðhorfið að halda sér heilbrigðum í fríinu held ég að verði trendy og að fólk muni finna sér leiðir til þess að hreyfa sig fyrir líkama og sál. 

Sem betur fer er orðið trendy að hreyfa sig og að lifa heilbrigðum lífsstíl og það ætti ekki að breytast yfir sumartímann. Það er töff að taka æfingu og efla líkama og sál þótt maður sé í fríi. Ekki verra ef fjölskylda og vinir taka þátt með manni!“

Öll hreyfing er betri en engin hreyfing

„Sem betur fer er fólk aðeins farið að hugsa öðruvísi þegar kemur að hreyfingu og mér finnst oft gott að minna á að öll hreyfing er betri en engin hreyfing. Ef það er mikið að gera og það er ógerlegt að taka klukkutíma æfingu þá þýðir það samt ekki að það sé málið að sleppa alfarið hreyfingu. 

Ég held að hugsunarhátturinn „öll hreyfing er betri en engin hreyfing“ verði ríkjandi í sumar og margir muni tileinka sér styttri æfingar í staðin fyrir að sleppa því alfarið, svo á dögum þar sem meiri tími gefst þá er hægt að taka gott session

Hugmyndir af stuttum en áhrifaríkum æfingum væri þá t.d. að fara í göngutúr eða út að skokka, eða gera stutta heimaæfingu, t.d. Mini series inni á Withsara sem eru fimm til fimmtán mínútna æfingar sem einblína á ákveðna líkamsparta í hverri æfingu, taka nokkrar teygjur á dýnunni eða bara fara í plankakeppni eða stoppdans við börnin sín. 

Hreyfing má vera í hvaða formi sem er og þarf ekki alltaf að vera alveg hnitmiðuð og skipulögð.

Líkaminn okkar og sál þarf á smá hreyfingu að halda alla daga og um að gera að vera sniðugur í fríinu með hvað hentar hverju sinni.“

Æfingar sem hægt er að gera utandyra

„Þó að veðrið á okkar fallega landi bjóði ekki alltaf upp á taka æfingu á pallinum þá má samt ekki láta það stoppa sig. Trendið í sumar verður klárlega að klæða sig í takt við veðrið, taka æfingu utandyra og njóta þess að vera úti. Göngur verða heitar, skokk í góðra vina hópi, pilates eða Barre úti í garði og núvitund í kyrrðinni í náttúrunni. 

Útivera gefur okkur nefnilega svo mikið andlega líka, hjálpar til við að róa taugakerfið og hreinsa hugann. Um að gera að samtvinna hreyfingu og útiveru til þess að efla vellíðan.“

Sumarförðun

Birkir Már Hafberg förðunarfræðingur:

Birkir Már Hafberg lumar á góðum förðunarráðum. Aðsend

Litríkir maskarar

„Litaðir maskarar eru komnir til baka! Það er svo einfalt að poppa upp look á einfaldan hátt með litaðan maskara. Ef þú ert smeyk/ur við liti notaðu þá svartan eða brúnan maskara á efri augnhárunum og svo litaðan á neðri, það verður strax mildara en færð samt pop of color!“

Birkir segir að litríkir maskarar séu að sækja í sig veðrið. Getty

Gervi Freknur

„Ef þú villt bæta smá ferskleika og sólkysstu yfirbragði við lúkkið þitt er alltaf sætt að bæta nokkrum „faux“ freknum yfir nefbroddinn og/eða á kinnarnar. Ég nota sjálfur augabrúna penna til þess að dúmpa nokkrum sætum freknum á nefið og efst á kinnbeinunum. Smá ráð: Settu freknurnar á húðinni áður en þú púðrar hana, þá munu freknurnar blandast betur inn í húðina.“

Frískleg húð

„Þið sem viljið vera fersk en ekki sjáanlega máluð munið elska þetta trend! Mínímalismi er algjörlega málið þegar kemur að „no makeup“ förðun. Notaðu krem bronzer til að endurvekja ljómann í húðinni og dúmpaðu smá krem kinnalit efst á kinnbeinin og yfir nefið. 

Kláraðu lúkkið með því að setja smá gel á augabrúnirnar og ljómandi hyljara til þess að lýsa upp augnsvæðið. Þetta er mitt go to alla daga ef ég vil líta út fyrir að vera týpan sem drekkur tvo lítra af vatni alla daga.“

No makeup förðunin er alltaf klassísk. Sömuleiðis geta þeir sem vilja leikið sér að því að setja á sig freknur. Getty

SPF!

„Sumarið er mætt og sólin er hægt og rólega að koma úr felum. Þá er mikilvægt að huga að því að nota vörur með sólarvörn. Ég mæli með að velja þér farða eða skin tint með sólarvörn til að einfalda líf sitt og koma í veg fyrir óþarflega mörg skref í húðrútínunni þinni. Fullkominn húð sem er einnig varin frá skaðlegum sólargeislum? Sign me up!

„Smokey“ lína

„Smokey augu eru komin til að vera!  Þetta er fullkomin augnförðun fyrir þau sem eiga stundum erfitt með augnblýant því þetta má vera smá messy. Notaðu mattan kaldtónaðan brúnan augnskugga yfir allt augað og svo dökkbrúnan eða svartan augnskugga alveg við augnhárarótina og út í spíss. 

Ef þú vilt fullkomna línuna þá er geggjað ráð að taka eyrnapinna með smá micellar vatni og hreinsa undir augnblýantinum, þá verður línan skarpari!“

Sumartískan

Rúbina Singh Arnoddsdóttir, fatahönnuður og stílisti: 

Rúbina Singh Arnoddsdóttir er nýútskrifaður fatahönnuður og vakti mikla athygli fyrir útskrifarlínu sína. Aðsend

„Ég spái því að það verði alls konar spennandi hlutir í gangi í tískunni í sumar en það sem ég ætla að tileinka mér er hugsað út frá þægindum og góðri nýtingu á fataskápnum mínum! Ég mæli eindregið með því að nýta það sem til er en klæða sig í það með nýjum leiðum. 

Mínar fjórar helstu leiðir fyrir sumarið eru comfort chic eða þægilega smart, volume dressing eða ólík lög af fatnaði, pop of color eða litur og aukahlutir. 

COMFORT CHIC 

50% þægindi, 50% fín. Að dressa flíkur upp og niður er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hugsa að við munum sjá mikið af því í sumar í mismunandi útfærslu. Sú pæling gengur út frá því að blanda saman casual flík við fínni. Að taka fínar buxur og para þær við casual jakka. 

VOLUME DRESSING 

Þessi leið leggur upp úr formi og áferð á fötum. Hér er hægt að klæðast einlitu „outfitti“ þar sem aðalpælingin er að fötin séu í mismunandi skala miðað við líkamann. Gott einfalt dæmi um það er til dæmis að vera í svörtum þröngum capri buxum og stílisera það við svartan stóran (e. oversized) jakka. Þá ertu komin með skemmtilega silúettu sem væri hægt að hafa sem svo eða taka lúkkið lengra með næstu leiðum. 

Þessi litríki fatnaður er hluti af útskriftarlínu Rúbinu. Eygló Gísla

POP OF COLOR 

Það er einhver gleði sem fylgir því að klæðast skemmtilegum litum, það getur verið falleg viðbót við einlitt outfit. Ef við hugsum áfram um þröngu capri buxurnar og oversized jakkann en bætum við stórri marglitaðri tösku og beige lituðum stórum stígvélum (e. oversized boots), einfalt en sjúklega skemmtilegt! 

Mér finnst síðan alltaf skemmtileg áskorun að reyna klæðast engum svörtum lit, þá koma oft óvæntar og skemmtilegar niðurstöður.
Annað lúkk eftir Rúbinu, litríkt og skemmtilega öðruvísi mótað. Aðsend

AUKAHLUTIR 

Af öllu ofan töldu er þessi uppáhalds. Maður getur aldrei bætt við sig of miklu glingri. Í skartinu hugsa ég að við munum sjá mjög mikið af boho stílum, litríkt, lífrænt og óvenjulegt skart i bland við chunky gull og silfur statement flíkur. Þegar þú ert eitthvað að efast mæli ég með að klæða sig í einfalda flík og bæta við helling af skarti.

Sumarmatur

Hinrik Lárusson, kokkur ársins 2024 og eigandi Lux veitingar:

Hinrik Örn Lárusson var kosinn kokkur ársins 2024. Aðsend

„Heitasta Trendið í sumar verða alvöru steikur, stórar steikur, gæða kjöt. Alvöru ribeye, tomahawk.

Íslendingurinn er að færa sig meira í gæðakjöt og versla kjötið sitt í kjötbúðum í stað að kaupa frosið kjöt í stórmörkuðum.

Ég mæli með fyrir þá sem eru ennþá fastir í gömlum hefðum að kaupa kjöt í frystikistum í stórmörkuðum að prófa að fara í Sælkerabúðina og velja gæðasteik á grillið.“

Hinrik mælir með gæðasteikum. Aðsend

Sumarhár

Veigar Már Harðarson, rakari hjá Studio 220:

Veigar Már er rakari hjá Studio 220. Aðsend

„Það sem einkenndi hártískuna hjá strákum árið 2023 voru klippingar þar sem beinir toppar voru algengir, fade í hliðum og aflitun.

Sumarið 2024 megum við búast við því að sjá meiri sídd bæði í topp og hliðum. Fleiri strákar munu greiða hárið frá andlitinu, annað hvort miðjuskipting eða hliðarskipting. Við erum aftur að sjá þessar „klassísku“ herraklippingar aftur nema með nýju sniði. 

„Fade“ mun færast frá „Skin fade“ yfir í svokallað „Taper fade“ þar sem bartar eru vel snyrtir og hnakki sömuleiðis. Það verður minna af aflituðu hári og við munum sjá miklu meira af strípum.

Veigar segir að góð klipping sé lykilatriði í herratískunni í sumar. Getty

Við munum halda áfram að sjá stráka hugsa vel um hárið enda er hárgreiðslan lykilatriði í tísku hjá strákum.“

Sum brúðkaup eru sumarbrúðkaup

Birna Hrönn, Eva María og Hannes Sasi hjá Pink Iceland:

Pink Iceland teymið Eva María Þórarinsdóttur Lange, Birna Hrönn og Hannes Sasi.Aðsend

Persónuleg skilaboð til gesta

„Pörin okkar eru mörg að taka sér tíma og leggja vinnu í að sýna gestum þakklæti og deila minningum á skemmtilegan máta á brúðkaupsdaginn. 

Oftast er þetta þegar gestir mæta í veisluna, þegar gestir setjast niður eru brúðhjónin búin að skrifa falleg skilaboð til þeirra, oft með skemmtilegum minningum og leyfa útprentuðum myndum að fylgja með. Þetta er oft notað í staðinn fyrir hinar klassísku sætismerkingar.“

Litir

„Litrík blóm í vendi, barmblóm, skreytingar í athöfn og veislu eru að koma mjög sterk inn. Þá er bæði verið að blanda saman fallegum litum eða fara útí meira einlitt en samt í mismunandi blæbrigðum.“

Litríkir blómvendir og áfangastaðabrúðkaup eru vinsæl í sumar. Getty

Áfangastaðabrúðkaup

„Trend sem heldur sér milli ára er að Íslendingar eru mikið að skoða möguleikann á að fara erlendis til að gifta sig. Þá er gestahópurinn oft minni, nánasta fjölskylda og vinir. Löndin sem flestir eru að horfa til eru Ítalía og Spánn. 

Pink Iceland hefur síðastliðin ár verið að aðstoða pör við skipulagningu á brúðkaupum á Spáni og Ítalíu og það hefur verið draumi líkast. Í sumar verðum við á ferðinni með dásamlegu pari og gestunum þeirra í nálægð við Gardavatnið.“

Óhefðbundin brúðkaupsföt

„Það er skemmtilegt að sjá hversu mikil fjölbreytni er að verða í fatavali þegar kemur að brúðkaupsdeginum. 

Margir af okkar erlendu gestum miða valið bæði við persónuleikann sinn og náttúruna sem þau giftast í, til dæmis hvítur og svartur kjóll við Kötlujökul eða útsaumuð blóm í kjólinn um sumar í lúpínuengjum.“

Pink Iceland skipuleggur fjölbreytt brúðkaup og getur brúðkaupsfatnaðurinn sömuleiðis verið fjölbreyttur.Kristín María

„Live photobooth“ eða lifandi myndakassi

„Það er æðisleg viðbót við veisluna að hafa ljósmyndara sem setur upp míní stúdíó í veislunni og tekur myndir af gestum við fallegan bakgrunn. 

Það er hægt að fá myndirnar unnar á staðnum og sendar beint til sín og svo er þeim hlaðið upp á heimasíðu sem brúðhjónin hafa svo aðgang að. Sunday & White Studio hafa verið að gera þetta fyrir Pink Iceland og vakið þvílíka lukku.“

Fjölbreyttar og fjörugar sumargöngur

Hjalti Freyr, Vífill Traustason og Fjallhalla teymið:

Fjallhalla teymið mælir með ýmsum fjölbreyttum göngum. Fjallhalla

„Loksins er farið að viðra til fjalla og veðurfræðingar landsins búin að lofa góðu sumri. Hvergi í heiminum er jafn þétt net af flottum gönguleiðum og á Íslandi. 

Valkvíðinn fer oft með okkur en til þess að halda þessu einföldu og aðgengilegu erum við með fjögur fjöll og göngusvæði á tékk-listanum í sumar. Allt frá þokkalega ljúfu léttmeti upp í tveggja til þriggja daga ævintýri.

Glymur: Drumburinn yfir ána verður kominn á sinn stað bráðlega og þá eru fáar göngur jafn flottar. Mælum með því að taka 1-2 upphitunargöngur bara á eitthvað krúttlegt fell í nærumhverfinu áður en er lagt í Glym af því leiðin er lúmskt brött á köflum. Klassískt ævintýri í Hvalfirðinum og stopp á bakaleiðinni í Hvammsvík fyrir nautnaseggina, A+.

Hengilsvæðið: Veljum enga eina göngu hérna, bara að básúna því eins hátt og hægt er hversu geggjað þetta svæði er. Yfir 100 km af gönguleiðum, fallegir jarðvarmalitir, toppar með geggjuðu útsýni m.a. yfir Þingvelli, allt einhverja 20 km frá höfuðborgarsvæðinu.

Þjórsárdalur: Perlur hvert sem litið er; Háifoss, Hjálparfoss, Gjáin. Gullfallegt svæði þar sem þú verður (vonandi) ekki umkringdur túristum og myndavéladrónum. Hjálparfoss þar sem tveir renna saman í einn er reyndar 50/50 að vera fyrir á brúðkaupsmynd hjá ofurríkum útlendingum.

Fimmvörðuháls og svo Þórsgata í Þórsmörk: Fimmvörðuháls er kannski augljóst svar en það er líka bara góð ástæða fyrir því, hreint út sagt geitin í íslenskum göngum. En ekki hoppa beint upp í rútu og heim þegar er komið inn í Þórsmörk. 

Ísland býður upp á fjöldann allan af náttúruperlum. Fjallhalla

Mælum með að tjalda eða splæsa í glamping í Húsadal, njóta og skoða svo Þórsgötu næsta dag. Þau hörðustu skrá sig svo í Volcano Trail Run-ið í beinu framhaldi, fallegasta utanvegahlaup heims og ekki sama geðveiki og öll Ultra hlaupin.

Bónusfjall: Þyrill í Hvalfirði, snöggt skrepp áður en maður fer í búbblur í Hvammsvík, sætt vina- eða rómódeit.

Við hjá Fjallhalla sjáum ár eftir ár að fjöllin kalla á fólk og að aktívur lífsstíll með fjallgöngur, utanvegahlaup og almennri útivist er að verða algjör kjarni af sumarlífstílnum hjá sífellt fleirum. 

Við spáum því að Íslenska sumarkonan færi sig úr Epal yfir í Everest og haldi áfram að hambreytast í Íslensku Fjallkonuna 2.0 og þá erum við að tala um að veiðihatturinn, sjalið og háu stígvélin víkja fyrir Rudy-sólgleraugum (sjá Mari í Bakgarðshlaupinu), fallegu ullarundirlagi og léttu úlpuvesti yfir.

„Public service announcement“ svo að gefnu tilefni: Vera í réttum skóbúnað, hlý föt með og ekki láta Björgunarsveitina þurfa að sækja sig, túristinn mun halda þeim alveg nógu uppteknum.“

Sumartónlist sem kemur þér í gírinn

Guðbjörg Ýr Hilmarsdóttir, DJ Gugga:

DJ Gugga spilar sjóðheita tóna meðal annars á Sæta svíninu. Aðsend

„Sumarið er handan við hornið og ég held við megum búast við alvöru sólskinsvíbrum þetta sumarið! Ég held að það verði slatti af garðpartýjum og fólk verður að njóta sín í blíðunni niðri bæ. Það verður allt stappað, ég er að segja ykkur það!

Þegar kemur að góðu sumri skiptir tónlistin gríðarlega miklu máli! Þeir sem þekkja mig vita að ég er alltaf mætt með græjurnar út á pallinn þegar sólin lætur sjá sig. Tónlistin býr til alla stemninguna og því mikilvægt að spila réttu lögin!

Þetta sumar verður alvöru hot girl summer svo gellutónlistinn mun aldrei bregðast okkur. Það eru þessi klassísku hittarar frá Rihönnu, Pussycat Dolls, Britney Spears, Beyonce, Fergie, Nicki Minaj og fleiri. 

Ég verð að segja: Unwritten er klárlega sumargellulag 2024, sem er gamalt lag eftir Natasha Bedingfield sem hefur heldur betur slegið í gegn eftir kvikmyndina Anyone but you.

Mér finnst tónlistarstefna sumarsins vera svolítið Disco funky house, það sem fær mann alltaf til að dilla sér aðeins yfir góðum sumardrykk. Þau lög sem verða spiluð viðstöðulaust hjá mér þetta sumarið verða klárlega:

Bailando - Paradisio

We found love - Rihanna

Beat of youre Heart - Purple Disco Machine, ÁSDÍS

Million dollar baby - Tommy Richman

Pedro - Jaxomy

Family Affair - Mary J Blidge

Murder on the dancefloor - Sophie Ellis - Bextor

Im a Slave 4 U - Britney Spears

Það verður einnig spennandi að sjá hvað Billie Eilish býður okkur uppá í sumar með nýju plötunni sinni Hit Me Hard and Soft - sem kemur út í dag. Ég hlakka til að hlusta í gegn og heyra hvað gerist þar!

Ég held að íslenska tónlistin verði einnig sterk í sumar, hún klikkar ekki. Hvort sem það eru íslensk dægurlög, sem eru alltaf klassísk á sumrin eða jafnvel nýja stöffið ef svo má segja. 

Það eru þessi lög sem hafa verið að slá í gegn þessa dagana og ég held þau eigi bara eftir að verða heitari í sumar. Það eru lög eins og „Monní“ með Aron Can. Það er algjör sumarhittari finnst mér og það fara allir alltaf í jafn mikinn gír þegar ég spila það þessa dagana. 

„Þú sagðir“ með GDRN eða Guðrún Ýr af nýju plötunni hennar „Frá mér til þín“. Það er smá rokk væb og góður fílingur þar sem kemur manni í gírinn. Svo er það náttúrulega nýja platan frá Clubdub sem virðist ætla að gera allt vitlaust: „Risa tilkynning“ Ég held hún verði mikið spiluð hjá mörgum enda alvöru stemnings plata á ferð!

Patrik Atla eða Prettyboitjokko að gefa út plötu 24.maí. Það verður gaman að sjá hvort það verði ekki alvöru sumarfílingur í henni. Ég er allavegana vel peppuð!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×