Erlent

Skrið­drekar Ísraels­hers komnir inn í í­búða­hverfi í Rafah

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viðbragðsaðilar vinna að því að grafa upp lík í Nuseirat, eftir loftárás Ísraelshers.
Viðbragðsaðilar vinna að því að grafa upp lík í Nuseirat, eftir loftárás Ísraelshers. AP/Abdel Kareem Hana

Ísraelsmenn halda áfram að sækja inn í Rafah og hafa skriðdrekar þeirra nú náð inn í íbúðahverfi í borginni. Áætlað er að 360 til 500 þúsund manns hafi yfirgefið borgina eftir að þeir voru hvattir til að rýma ákveðin svæði.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum telja viðbúnað Ísraelsmanna við Rafah hafa náð því marki að þeir séu tilbúnir til að ráðast inn í borgina á næstu dögum. CNN segir embættismenn þó óvissa um að fyrirskipun um áhlaup hafi verið gefin út, sem færi þvert gegn vilja Bandaríkjamanna.

Einn heimildarmaður segir Ísraelsmenn hafa langt í frá gert nóg til að undirbúa innviði fyrir utan borgina til að taka á móti þeim sem munu neyðast til að flýja hana ef til átaka kemur.

Þrátt fyrir að hafa sett sig upp á móti áhlaupi á Rafah og hætt við vopnasendingu af ótta við að vopnin yrðu notuð í borginni, hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum nú tekið til umræðu nýjan vopnapakka til handa Ísraelsmönnum að andvirði milljarðs dala.

Viðræður um pakkann eru þó á frumstigi í þinginu.

Varnarmálayfirvöld vestanhafs segja bryggju sem unnið hefur verið að við strendur Gasa verða tekna í notkun á næstu dögum. Tilgangurinn með bryggjunni er að auka flutning neyðargagna inn á svæðið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×