Körfubolti

Vals­menn endur­heimta Kára á besta tíma

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kári Jónsson verður í leikmannahópi Vals í kvöld.
Kári Jónsson verður í leikmannahópi Vals í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Deildarmeisturum Vals hefur borist gríðarlegur liðsstyrkur fyrir úrslitaeinvígi Subway-deildar karla í körfubolta sem hefst nú í kvöld. Kári Jónsson, sem hefur verið meiddur undanfarna mánuði, er snúinn aftur í leikmannahóp liðsins.

Frá þessu var greint í upphituninni fyrir leik Vals og Grindavíkur sem hefst eftir rétt um hálftíma, en Valsliðið hefur þurft að reiða sig af án Kára frá því snemma móts. Kári hefur verið einn af bestu leikmönnum deildarinnar undanfarin ár.

Hann náði þó aðeins fjórum deildarleikjum með Valsliðinu á yfirstandandi tímabili þar sem hann skilaði 11,8 stigum að meðaltali í leik, ásamt því að gefa 3,5 stoðsendingar og taka 2,8 fráköst. Kári lék síðast deildarleik með Valsliðinu þann 10. nóvember á síðasta ári þegar Valur vann 124-127 sigur gegn Haukum í ótrúlegum tvíframlengdum leik.

Mánuði síðar sendi körfuknattleiksdeild Vals svo frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að Kári yrði frá keppni næstu mánuðina. Í tilkynningunni kom hins vegar ekki fram hvenær Kári myndi snúa aftur, en nú er orðið ljóst að þessi öflugi leikmaður er að verða klár í slaginn og óhætt er að segja að tímasetninginn fyrir Valsmenn gæti varla verið betri.

Úrslitaeinvígi Vals og Grindavíkur hefst í kvöld klukkan 19:15 og verður leikurinn að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn er þegar hafin.

Kári Jónsson hitar upp fyrir leik kvöldsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×