Gvardiol skaut City á toppinn

Sindri Sverrisson skrifar
Josko Gvardiol hefur verið funheitur að undanförnu og er hér fagnað eftir að hafa komið Manchester City í 1-0 í dag.
Josko Gvardiol hefur verið funheitur að undanförnu og er hér fagnað eftir að hafa komið Manchester City í 1-0 í dag. Getty

Manchester City var í stuði gegn Fulham í dag, vann 4-0 og kom sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, nú þegar meistararnir eiga tvo leiki eftir.

Króatíski bakvörðurinn Josko Gvardiol hefur verið í stuði að undanförnu fyrir City og hann skoraði tvö mörk fyrir liðið í dag. Það fyrra kom á þrettándu mínútu eftir stutta sendingu frá Kevin de Bruyne og var staðan 1-0 í hálfleik. 

Í seinni hálfleik skoraði svo Phil Foden sem þar með hefur skorað tólf mörk í síðustu tólf deildarleikjum sínum, en boltinn hrökk til hans eftir að Bernardo Silva var tæklaður. 

Silva átti svo sendinguna á Gvardiol í þriðja markinu þegar enn voru tuttugu mínútur til leiksloka. Í uppbótartíma leiksins fékk City svo vítaspyrnu en í stað þess að Gvardiol reyndi að fullkomna þrennuna þá tók Julian Alvarez spyrnuna og skoraði af öryggi.

City er nú formlega komið með yfirhöndina í titilbaráttunni, tveimur stigum fyrir ofan Arsenal þegar bæði lið eiga tvo leiki eftir. Sigur City þýðir jafnframt að vonir Liverpool um að landa titlinum eru endanlega úr sögunni. 

Arsenal getur snúið aftur á toppinn á morgun með sigri gegn Manchester United á Old Trafford og á svo eftir heimaleik við Everton um næstu helgi. Síðustu tveir leikir City eru við Tottenham á útivelli og við West Ham á heimavelli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira