Innlent

Gengi Svedda tannar handtekið í Hollandi

Sverrir Þór Gunnarsson
Sverrir Þór Gunnarsson

Þrír nánir samverkamenn fíkniefnasmyglarans Sverris Þórs Gunnarssonar, Svedda tannar, voru handteknir í Amsterdam í Hollandi 18. ágúst síðastliðinn eftir að rúmlega tvítug íslensk kona sakaði þá um að ætla að selja hana í vændi í Brasilíu.

Konan sagði sögu sína í DV í gær. Hún kveðst hafa verið í Amsterdam í boði vinar síns og allt hafi verið eðlilegt í fyrstu en fljótlega hafi hegðun fólksins sem hún gisti hjá orðið einkennileg og á hana hafi runnið tvær grímur. Hún hafi síðan heyrt á tal mannanna þar sem þeir hafi rætt það að selja hana í vændi í Brasilíu. Þá hafi hún hringt í lögregluna í Amsterdam og óskað eftir hjálp.

Fimm manns voru handteknir vegna málsins, þrír karlar og tvær konur. Á heimilinu fannst lítilræði af fíkniefnum og einhver vopn, en þrátt fyrir það var fólkinu sleppt úr haldi eftir að hafa setið í varðhaldi í tvo sólarhringa.

Orð stóð gegn orði varðandi mansalsþáttinn og ekki þótti sannað að fólkið hefði haft nokkuð slíkt í hyggju. Annmarkar á leitarheimild lögreglu urðu til þess að ekki reyndist unnt að ákæra vegna vopnanna og fíkniefnanna.

Einn mannanna, Steinar Aubertsson, situr enn inni í Amsterdam og verður framseldur til Íslands innan tuttugu daga. Hann hefur verið eftirlýstur af íslenskum lögregluyfirvöldum vegna innflutnings á tæpu kílói af kókaíni til Íslands og á yfir höfði sér ákæru vegna málsins þegar hann hann kemur til landsins. Þegar hafa fjórir verið ákærðir vegna þess máls.

Heimildir Fréttablaðsins herma að Steinar og hinir mennirnir tveir sem handteknir voru í Amsterdam hafi síðustu ár verið meðal nánustu samverkamanna Sverris Þórs Gunnarssonar, sem nú situr inni í Rio de Janeiro í Brasilíu vegna stórtæks e-töflusmygls.

Meðal hinna handteknu var Steinþór Árni Sigursteinsson, sem þekktur er undir viðurnefninu Steini Hitler.- sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×