Upp­gjör og við­töl: Breiða­blik - Tinda­stóll 3-0 | Sann­færandi sigur Blika á kraft­miklum Stólum

Ólafur Þór Jónsson skrifar
Telma Ívarsdóttir var frábær í dag.
Telma Ívarsdóttir var frábær í dag. Vísir/Diego

Breiðablik er enn taplaust í Bestu deild kvenna í fótbolta eftir góðan sigur á Tindastól í dag. Á 82. mínútu var leikurinn í járnum og Tindastóll nær því að jafna en hitt. Á örfáum sekúndum snerust örlög Tindastóls við og öflugt lið Breiðabliks komið í 3-0 forystu.

Telma hetjan í 100. leiknum: Sannfærandi sigur Blika á kraftmiklum Stólum

Breiðablik stýrði leiknum og voru alltaf líklegri aðilinn. Án þess þó að skapa sér mikið af dauðafærum. Liðið virtist stundum ætla að senda boltann inní netið og reyna að vera aðeins of sniðugar sóknarlega. Vantaði smá kraft og beinskeyttni í Breiðablik. Tindastóll aftur á móti voru kraftmiklar, gáfu lítil færi á sér varnarlega og náðu nokkrum köflum þar sem þeim tókst að sækja hratt á Breiðablik. 

Aftur á móti voru kaflarnir þar sem liðið náði að halda boltanum alltof fáir. Það var frekar langt á milli miðju og sóknar og þurfti Rhodes framherji Tindstóls til að mynda að vinna neðarlega á vellinum.

Sigur Breiðabliks var sannfærandi á sama tíma og Tindastóll var ekki langt frá því að stela stigi.

Atvik leiksins

Seinna mark Breiðabliks var mikill vendipunktur og sýnir okkur hvað það er stutt á milli í þessari fögru íþrótt. Tindastóll kemst í dauðafæri þar sem Hugrún Pálsdóttir er ein gegn Telmu Ívarsdóttur. Hún fer illa með færið, Blikar senda langa sendingu fram á Andreu. Hún tekur á rás inná völlinn með boltann og skorar fallegt mark með skoti í fjærhornið. 

Örfáar sekúndur sem munaði þarna á því að Tindastóll var næstum búið að jafna en fá svo á sig annað mark beint í grillið.

Stjörnur og skúrkar

Vigdís Lilja var alltaf hættuleg í dag, mikið í boltanum og skapaði usla í vítateig Tindastóls. Á sama tíma var Agla María frábær og það var alveg ljóst að gæðalega bar hún af á vellinum. Allar ákvarðanir réttar og skapaði mikið. 

Maður leiksins var samt sem áður Telma Ívarsdóttir sem lék í kvöld sinn 100. leik fyrir Breiðablik en hún greip vel inní á ögurstundu og var örugg í rammanum.

Miðja Tindastóls var í vandræðum. þegar liðið ætlaði að spila hratt upp völlinn stoppaði boltann ítrekað á miðjumönnum Tindastóls, þeim Láru Margréti og Gabrielle. Þær áttu því ekki góðan dag í dag.

Dómarinn

Tomasz var með allar stóru ákvarðanirnar réttar. Það var ekki mikið af vafaatriðum eða látum. Í raun fór bara ótrúlega lítið fyrir dómaranum, er það ekki þannig sem það á að vera? 8/10

Stemning og umgjörð

Sólríkur dagur á Kópavogsvelli. Fyrir sléttu ári var allt þakið í snjó á höfuðborgarsvæðinu og því voru aðstæðurnar mjög þakklátar í Kópavoginum. Hitinn var um 11 stig en smá vindhviður á vellinum til að krydda þetta. Völlurinn virtist í toppstandi og umgjörðin í fínu lagi.

Blikar buðu fjölmiðlamönnum uppá ískaffi sem var kærkomið í hitanum. Það var reyndar ekki viljandi þar sem uppáhellingurinn var líklega nokkra vikna gamall en óþarfi skemma góða sögu. Hamborgararnir voru heiðarlegir og góðir, allt eins og það á að vera.

„Tökum það jákvæða úr þessu“

Agla María átti mjög góðan leik í dag.Vísir/Hulda Margrét

Agla María Albertsdóttir var kampakát eftir sigur Breiðabliks á Tindastól í Bestu deild kvenna í dag. Ljóst er að Breiðablik ætlar sér stóra hluti í vetur en niðurstaðan eftir tvo leiki eru tveir sannfærandi sigrar.

„Þetta er gríðarlegur léttir, þetta leit ekki vel út í stöðunni 1-0 þegar Telma bjargar svakalega en mjög gott að vinna þennan leik. Hefðum klárlega getað unnið þennan leik fyrr, fengum nóg af færum til þess.“ sagði Agla um frammistöðu síns liðs eftir leik dagsins. Hún bætti við:

„Við vorum að komast í ágætis stöður en ákvarðanataka á síðusta fjórðungi var ekki nægilega góð hjá okkur. Við erum samt sem áður að skora þrjú mörk og höldum hreinu. Við tökum bara það jákvæða út úr þessu.“

Leikurinn var í járnum framan af en Breiðablik skorar tvö mörk seint í leiknum til að innsigla sigurinn. Um lið Tindastóls sagði Agla:

„Tindastóll voru klárlega betri í síðasta leik en unnu ekki. Þannig þær eru með hörku lið svo við erum bara ánægðar að vinna.“

Telma Ívarsdóttir markmaður Breiðabliks lék sinn 100. leik fyrir blika og átti frábæran leik. Hvað finnst Öglu um að hafa jafn öflugan markmann á milli stanganna.

„Það skiptir öllu máli að hafa svona gæði í markinu svo er hún líka stýrandi leikmönnum fyrir framan sig allan leikinn. Skiptir ótrúlega miklu fyrir okkur að hafa hana.“

„Ég eins og aðrir hefðum getað gert betur á síðasta fjórðungi. Gott að skora en aðalmálið að vinna,“ sagði Agla María að lokum um sína frammistöðu og sigur kvöldsins.

„Við erum ekki langt frá þessum liðum“

Halldór Jón Sigurðsson, Donni.Vísir/Vilhelm

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, var súr en sáttur eftir 3-0 tap gegn Breiðablik í kvöld. Tindastóll voru kraftmiklar á báðum endum en fannst Halldóri tapið verðskuldað:

„Nei mér finnst það ekki. Ekki það að Breiðablik var betra liðið á vellinum og voru meira með boltann. Sem var alveg vitað, við fengum samt þrjú mjög góð færi í þessum leik. Það breytir svo auðvitað leiknum þegar við fáum þetta dauðafæri en í staðin fyrir að jafna í 1-1 fáum við mark í andlitið og þá er róðurinn þyngri,“ sagði Donni og bætti við um frammistöðu liðsins:

„Mér fannst þetta allt í lagi frammistaða. Við getum gert betur og munum gera það næst. Heilt yfir er ég þokkalega sáttur við vinnuframlagið og þetta hefði getað snúist okkur í vil.“

Tindastóll var þrátt fyrir 3-0 tap kraftmiklar og áttu heilt yfir fínan leik. Breiðablik var greinilega liðið sem stýrði leiknum en voru lengi að finna þetta annað mark til að klára leikinn.

„Mér finnst við ekki langt frá þessum liðum og við eigum bara eftir að verða betri eftir því sem líður á sumarið. Við erum enþá að reyna að slípa okkur saman og ekki komnir með allan hópinn. Erum að venjast hraðanum og komast í gírinn. Það tekur pínu tíma, það gerði það líka í fyrra en svo þegar við dettum í gang þá verðum við óstöðvandi.“

Halldór leiddi liðið útá völl eftir leik og hélt ræðu fyrir þær á miðjum vellinum. Hvað var hann að segja við sínar stúlkur? 

„Að ég hefði verið stoltur af því og þakkaði þeim fyrir vinnuframlagið. Mér fannst við gefa allt í leikinn og eiga meira skilið en að tapa 3-0. Hefði fundist jafntefli ágætis úrslit fyrir okkur og þær eiga það skilið. Núna snýst þetta bara um að hafa hausinn uppi og vera stoltar af heildarvinnuframlagi leiksins. Einnig er endurheimtin mikilvæg núna og mæta svo Stjörnunni á föstudaginn.“

Frammistaðan var kannski góð en niðurstaðan eftir tvo leiki er tvö töp. Hefur Halldór Áhyggjur af því að töpin dragi af stelpunum. 

„Þær vita sem er að við munum bæta okkur með tímanum. Það var vitað fyrir tímabilið að okkur myndi vaxa ásmegin. Ég hef ekki áhyggjur af neinum nema að við erum ekki enþá búnar að skora. Það er pínu leitt en við gerðum svipað í fyrra. Við erum bara á góðri leið en þurfum að fara að setja boltann yfir línuna.“

Tindastóll mætir liði Stjörnunnar í næstu umferð í Garðabænum næstkomandi föstudag á Samsungvellinum.

„Telma bjargar okkur“

Nik og Edda Garðarsdóttir, þjálfarateymi Breiðabliks.Breiðablik

Nik Chamberlain, þjálfara Breiðabliks, var létt eftir leik að hafa náð í sigur þrátt fyrir frammistöðu.

„Þetta hefði auðveldlega getað verið 1-1. Telma vann leikinn fyrir okkur með þessari vörslu í lokin. Við hefðum samt átt að vera löngu búin að klára leikinn á þeim tímapunkti. Ákvarðanataka okkar á síðasta fjórðungi voru ekki nógu góðar. Við vorum eins og við værum í upphitun lengi í leiknum. Settum fyrirgjafir beint í hendurnar á þeim og gerðum þeim ekki erfitt fyrir að verjast. Á öðrum degi hefðum við einungis fengið eitt stig útúr þessum leik,“ sagði Nik í samtali við blaðamann.

Breiðablik skapaði sér ekki mikið af dauðafærum, hefur Nik áhyggjur af því?

„Þetta var bara einn af þessum dögum. Ákvarðanatakan var léleg en við skutum samt tvisvar í stöngina þannig að þetta var ekki hræðilegt. Ég hef því ekki áhyggjur af þessu, þetta mun koma“

Að lokum virtist það vera gæði einstakra leikmann líkt og Öglu Maríu, Andreu og Telmu sem sköpuðu sigurinn. Hversu miklu munar að hafa svona leikmenn innanborðs.

„Auðvitað, þegar þú hefur gæðaleikmenn eins og þessa líður manni betur. Þær geta skapað og skorað mörk þegar við þurfum það. Eins og Andrea í síðasta öðru markinu sem á eftir að gera mjög mikið þegar hún fær boltann. Það hjálpar að hafa svona leikmenn en ég tel að Telma hafi unnið leikinn fyrir okkur.“

Breiðablik mætir FH á Kópavogsvelli næsta föstudag í hörkuleik. Við hverju má búast?

„Það verður meiri orka og meiri barátta frá mínu liði. Við verðum að gera miklu betur ef við ætlum að vinna leikinn,“ sagði Nik eftir leik og virtist mjög létt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira