Innlent

Stórri flotaæfingu NATO lauk í Reykja­vík

Samúel Karl Ólason skrifar
Hollenski kafbáturinn HNLMS Dolfijn við Skarðsbakka í Reykjavík í dag. Kafbáturinn var notaður við æfingar á Atlantshafi undanfarnar tvær vikur.
Hollenski kafbáturinn HNLMS Dolfijn við Skarðsbakka í Reykjavík í dag. Kafbáturinn var notaður við æfingar á Atlantshafi undanfarnar tvær vikur. Vísir/Vilhelm

Flotaæfingunni Dynamic Mongoose 24 lauk hér í Reykjavík í dag. Sjóliðar frá fjölda bandalagsríkja Íslands í Atlantshafsbandalaginu hafa komið að æfingunni og þar á meðal Svíar sem eru hér í fyrsta sinn frá því þeir gengu í NATO í mars.

Dynamic Mongoose eru árlegar æfingar sem haldnar eru í Atlantshafinu. Þær eru haldnar til skiptis á Íslandi og í Noregi. Þetta árið var æfingin haldin samhliða umfangsmiklum flotaæfingum í Miðjarðarhafi og á Eystrasalti, sem bera heitið Neptune Strike 24.

Undanfarnar tvær vikur hafa sjóliðar frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Færeyjum, Hollandi, Kanada, Noregi, Spáni, Svíþjóð og Þýskalandi æft kafbátahernað í norðanverðu Atlantshafinu. Æfingarnar hófust í Noregi þann 29. apríl.

Flotanum var svo siglt til Færeyja og þaðan til Íslands og voru haldnar sífellt flóknari æfingar á leiðinni, samkvæmt grein á vef flotadeildar NATO.

Þar er haft eftir aðmírálnum Thomas Wall, sem stýrir kafbátaflota NATO, að æfingarnar undirstriki mátt Bandalagsins og þá sérstaklega þegar kemur að kafbátahernaði. Þá hafi það sýnt sig að fjölmargar æfingar með Svíum hafi haft mikil áhrif og að Svíar muni auka getu NATO í grunnum sjó til muna. Svíar hafi mikla reynslu á því sviði.

Áhöfn kafbátsins að störfum í dag.Vísir/Vilhelm

Áhafnir kafbáta frá Bandaríkjunum, Hollandi, Noregi og Svíþjóð fóru frá því að vera eltir af áhöfnum skipa yfir í að elta eigin skotmörk í sviðsettum árásum á flota óvinveittra ríkja. Meðal annars var æfingunum ætlað að auka samheldni og bæta samskiptaleiðir milli áhafna skipa og kafbáta frá mismunandi ríkjum.

Kafbátaleitarflugvélar frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Noregi og Þýskalandi komu einnig að æfingunum.

Hér að neðan má sjá myndband þar sem sónarbauju er varpað úr leitarþyrlu. Baujan hlustar eftir hljóðum frá kafbátum og sendir upplýsinarnar til skipa á svæðinu.


Tengdar fréttir

NATO æfir kafbátahernað við Íslandsstrendur

Herskip frá sex NATO-ríkjum taka þátt í kafbátaleitaræfingu sem fram fer í Norður-Atlantshafi næstu tíu daga. Æfingin fer að mestu leyti fram á hafsvæðinu við Noreg en að hluta til innan þess loftrýmissvæðis sem Ísland annast.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×