Innlent

Segir hin sigurstranglegu hafa tromp á hendi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Magnús Davíð Norðdahl borgarfulltrúi veltir fyrir sér mögulegum brögðum forsetaframbjóðendanna.
Magnús Davíð Norðdahl borgarfulltrúi veltir fyrir sér mögulegum brögðum forsetaframbjóðendanna. Vísir/Samsett

Magnús Davíð Norðdahl, borgarfulltrúi Pírata, segir þá fimm frambjóðendur sem búa yfir mestu fylgi í komandi forsetakosningum hafa tromp á hendi séu þeir ekki sigurvissir er nær dregur kjördegi. Ekki geti þeir allir orðið forseti en dragi eitt þeirra framboð sitt til baka og lýsi yfir stuðningi við meðframbjóðenda gæti sá hinn sami ráðið úrslitum að miklu leyti.

Í færslu sem Magnús birti á síðu sinni á Facebook í dag veltir hann þessum möguleika fyrir sér.

„Fyrir einhvern sem ekki sér fram á að vinna getur sá hinn sami ráðið niðurstöðu eða í öllu falli haft mikil áhrif á hver verður næsti forseti. Ekki síst myndi slík viðleitni vafalaust tryggja að einhver annar en Katrín Jakobsdóttir yrði forseti þar sem hún er á sama tíma vinsælust og óvinsælust á meðal kjósenda,“ skrifar hann.

Hann bendir á að líkast til kæmi slíkt bragð til með að hagnast Baldri Þórhallssyni mest þar sem hann sé oftast nefndur í öðru sæti á eftir uppáhaldsframbjóðenda í skoðanakönnunum.

Magnús spyr þá hin fimm efstu, hvort þau vilji frekar tapa í komandi kosningum eða ráða því hver skipar embættið næstu árin.

„Sá á kvölina sem á völina. Þetta á að einhverju leyti við um frambjóðendur með minna fylgi þó áhrif af brotthvarfi þeirra yrðu ekki eins afgerandi,“ skrifar hann þá.

Sjálfur segist Magnús styðja Baldur Þórhallsson í embættið en að hann muni vafalaust gera upp hug sinn endanlega eftir síðustu kappræðurnar daginn fyrir kosningar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×