Enski boltinn

Ten Hag segir að eig­endur United séu skyn­samir og muni ekki reka hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir slæmt gengi að undanförnu hefur Erik ten Hag enn tröllatrú á að hann nái að koma Manchester United á toppinn á ný.
Þrátt fyrir slæmt gengi að undanförnu hefur Erik ten Hag enn tröllatrú á að hann nái að koma Manchester United á toppinn á ný. getty/Matthew Peters

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að eigendur félagsins muni ekki reka hann þar sem þeir búi yfir heilbrigðri skynsemi.

Ten Hag situr í heitu sæti enda hefur United ekki átt gott tímabil. Á mánudaginn tapaði liðið 4-0 fyrir Crystal Palace sem jók pressuna á Ten Hag enn frekar og margir telja að hann eigi ekki mikið eftir í starfi hjá United.

Hollendingurinn virðist þó ekki hafa áhyggjur af því að missa starfið hjá United og telur að eigendur félagsins muni taka tillit til aðstæðna.

„Þeir búa held ég yfir heilbrigðri skynsemi,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi í dag.

„Þeir sjá að við höfum notað 32 varnarlínur, þar af þrettán miðvarðapör, misstum átta miðverði í meiðsli, höfum engan vinstri bakvörð og glímt við meiðsli og það hafi áhrif á úrslitin.“

Ten Hag sagði að það skipti sig ekki máli hvort eigendur United myndu stíga fram opinberlega og gefa honum traustsyfirlýsingu.

„Mér er alveg sama hvort þeir gera það eða ekki. Ég vinn að því að bæta og þróa liðið mitt. Um það snýst starfið mitt,“ sagði Ten Hag.

United tekur á móti Arsenal í næsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Strákarnir hans Ten Hags eru í 8. sæti með 54 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×