Fótbolti

„Skulda mér mikinn pening þarna hjá Lyngby“

Aron Guðmundsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen virðist á förum frá danska úrvalsdeildarfélaginu Lyngby. Það kemur Frey Alexanderssyni, fyrrverandi þjálfari Lyngby, ekki á óvart hversu vel Andri hefur staðið sig upp á síðkastið
Andri Lucas Guðjohnsen virðist á förum frá danska úrvalsdeildarfélaginu Lyngby. Það kemur Frey Alexanderssyni, fyrrverandi þjálfari Lyngby, ekki á óvart hversu vel Andri hefur staðið sig upp á síðkastið Vísir/Samsett mynd

„Þeir skulda mér mikinn pening þarna hjá Lyng­by,“ sagði Freyr Alexanders­­son, fyrr­verandi þjálfari Lyng­by í kímni og hló svo dátt í kjöl­farið að sögn blaða­­manns Tips­bladet sem náði í skottið á honum áðan til að spyrja út í mögu­­leg fé­lags­­skipti Andra Lucasar Guð­john­­sen frá Lyng­by til belgíska úr­­vals­­deildar­­fé­lagsins Gent sem virðist ná­lægt því að kaupa ís­lenska lands­liðs­fram­herjann.

Kaup Gent á Andra Lucasi virðast vera mjög ná­lægt því að ganga í gegn. Belgíski miðilinn HLN greindi frá því í morgun að Andri Lucas væri mættur til Belgíu með föður sínum, Eiði Smára Guð­john­sen, í við­ræður við for­ráða­menn Gent.

Heimildir Tips­bladet herma að Gent hafi gert til­boð í Andra Lucas. Til­boð sem for­ráða­mönnum Lyng­by leist vel á og gáfu í kjöl­farið ís­lenska lands­liðs­fram­herjanum leyfi til að ferðast til Belgíu og hefja við­ræður við Gent.

Ekki er langt síðan að Andri Lucas, sem kom fyrst á láni til Lyng­by frá Norr­köping, var keyptur til danska fé­lagsins á slikk. Í raun gerðist það bara í síðasta mánuði og skrifaði Andri Lucas undir þriggja ára samning við Lyng­by.

Frammi­staða Ís­lendingsins á yfir­standandi tíma­bili hefur verið frá­bær. Andri Lucas er marka­hæsti leik­maður dönsku úr­vals­deildarinnar um þessar mundir og því var það í raun að­eins tíma­spurs­mál hve­nær hann fengi tæki­færi til að taka næsta skref á sínum ferli. Nú horfir Lyng­by fram á það að græða vel á sölu Andra Lucasar.

Það kemur Frey Alexanders­syni, fyrr­verandi þjálfara Lyng­by sem var keyptur til KV Kortrijk í Belgíu fyrr á árinu, ekki á ó­vart að Andri Lucas sé að vekja svona mikla at­hygli. Nú horfir hann mögu­lega fram á það að mæta honum í belgísku úr­vals­deildinni, gangi allt eftir óskum bæði hjá Andra sjálfum og svo hjá Kortrijk sem er á leiðinni í um­spil um sæti í deildinni.

„Ég er á­nægður fyrir hönd allra í þessu máli. Í þessu græða allir og þetta er frá­bær saga. Við gerðum vel í að fá Andra Lucas til Lyng­by á sínum tíma. Þar nýttum við okkur góð sam­bönd, grunnurinn var til staðar og á­ætlun okkar um tveggja manna sóknar­línu féll vel í kramið.

Andri var þá í erfiðri stöðu hjá Norr­köping, sem spilaði að­eins með einn sóknar­mann. Glen Ridd­ers­holm, þjálfari Norr­köping, átti erfitt með að finna pláss fyrir Andra. Það sem Andri Lucas þarf er traust og spila­tíma. Hann treysti mér þegar að hann skipti yfir til Lyng­by og við sýndum honum fram á um­hverfi sem hann gat þrífst í. Þá er það rós í hnappa­gat Lyng­by að hafa tekið svona vel á móti honum því það var enginn vafi á því í mínum huga að hann myndi standa sig í stykkinu og fara langt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×