Fótbolti

Þórir hélt Braunschweig uppi og gerði Sveini greiða

Sindri Sverrisson skrifar
Þórir Jóhann Helgason brosti breitt og var vel fagnað af liðsfélögum og stuðningsmönnum eftir markið mikilvæga í dag, sem forðaði Braunschweig endanlega frá falli.
Þórir Jóhann Helgason brosti breitt og var vel fagnað af liðsfélögum og stuðningsmönnum eftir markið mikilvæga í dag, sem forðaði Braunschweig endanlega frá falli. Getty/Swen Pförtner

Þórir Jóhann Helgason reyndist hetja Braunschweig í dag þegar liðið vann 1-0 sigur á Wehen Wiesbaden og tryggði sér áframhaldandi veru í þýsku 2. deildinni í fótbolta. Um leið hjálpaði hann Hansa Rostock, liði Sveins Arons Guðjohnsen.

Þórir skoraði þar með annan leikinn í röð og hefur reynst Braunschweig dýrmætur á ögurstundu því fyrir leikinn í dag, í næstsíðustu umferð, var liðið enn í fallhættu, þremur stigum fyrir ofan Wehen Wiesbaden.

Sigurinn fleytti Braunschweig upp í 14. sæti, með 38 stig, en Wehen Wiesbaden situr eftir í 16. sæti, svokölluðu umspilsfallsæti, með 32 stig. Stigi neðar er Hansa Rostock sem nú á möguleika á að komast úr fallsæti fyrir lokaumferðina um næstu helgi.

Þórir, sem er 23 ára gamall, kom til Braunschweig frá Lecce á Ítalíu í fyrrasumar og hefur skorað þrjú mörk í 27 leikjum í næstefstu deild á leiktíðinni.

Jón Dagur ekki með í sigri á liðinu sem vill Andra

Landsliðsmaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson var hins vegar ekki með OH Leuven í Belgíu í dag, eftir að hafa skorað í síðasta leik. Í dag vann Leuven 1-0 útisigur á Gent, liðinu sem virðist vera að landa Andra Lucasi Guðjohnsen.

Sigurinn frestar því að Gent geti tryggt sér efsta sætið í miðjuhluta belgísku deildarinnar, og þar með sæti í umspili Sambandsdeildar Evrópu, en það virðist þó aðeins tímaspursmál enda liðið með níu stiga forskot á næsta lið, Mechelen, sem á þrjá leiki eftir. Leuven er með 29 stig eftir 37 leiki, í 4. sæti miðjuhlutans eða 10. sæti ef horft er til allrar deildarinnar en henni er skipt í þrjá hluta að loknum 30 umferðum.


Tengdar fréttir

Andri og Eiður mættir til Belgíu að semja

Landsliðsframherjinn Andri Lucas Guðjohnsen er eftirsóttur enda markahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta og hann mun nú eiga í viðræðum við belgíska félagið Gent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×