Enski boltinn

Saka Casemiro um leti: „Hreyfðu fæturna á þér“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Casemiro vill eflaust gleyma síðustu leikjum sínum fyrir Manchester United sem fyrst.
Casemiro vill eflaust gleyma síðustu leikjum sínum fyrir Manchester United sem fyrst. getty/Simon Stacpoole

Tvær Manchester United-hetjur sökuðu Brasilíumanninn Casemiro um leti í leiknum gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Arsenal vann leikinn á Old Trafford í gær, 0-1, og United hefur því tapað fjórtán leikjum í ensku úrvalsdeildinni, eitthvað sem hefur aldrei áður gerst.

Leandro Trossard skoraði eina mark leiksins í gær. Casemiro leit illa út í markinu en hann sat eftir, langt fyrir aftan félaga sína í vörn United, og spilaði Kai Havertz, sem lagði upp markið, réttstæðan.

„Þetta er letilegt. Hann er latur. Samherjar hans fóru fram og voru gripnir í bólinu. Hann verður að fara framar,“ sagði Wayne Rooney á Sky Sports í gær.

„Hvort sem þú ert miðjumaður eða miðvörður verðurðu að stíga upp með liðinu. Ef ekki spilarðu andstæðinginn réttstæðan og verður refsað.“

Roy Keane tók í sama streng og Rooney og sagði að ekki væri hægt að nota Casemiro í vörninni.

„Hann getur ekki spilað sem miðvörður í ensku úrvalsdeildinni. Hvaða veikleika sem þú ert með þá þjálfar þú ekki hraða. Það var líka smá leti að stíga upp sem leiddi til marksins,“ sagði Keane.

„Við erum ekki að segja að Casemiro geti dekkað stórt svæði en þú verður að stíga upp. Hreyfðu fæturna á þér.“

Casemiro hefur átt erfitt uppdráttar í vetur og ekki verið svipur að sjón frá því á síðasta tímabili. Hann var til að mynda ekki valinn í brasilíska landsliðið fyrir Copa América, Suður-Ameríkukeppnina, í sumar.

United mætir Newcastle United og Brighton í síðustu tveimur leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Manchester-liðin, United og City, eigast svo við í bikarúrslitaleiknum 25. maí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×