Upp­gjör: KR-HK 1-2 | Frækinn sigur HK á Meistara­völlum

Árni Jóhannsson skrifar
439734861_10159473863077447_8096673844242195_n
Vísir/Anton Brink

HK nýtti sín færi og varðist vel. Heldur betur góð frammistaða hjá gestunum sem fara sáttir með öll þrjú stigin heim í Kópavog.y

Leikurinn byrjaði rólega og voru liðin að þreifa á hvort öðru en KR náði síðan undirtökunum og var mikið meira með boltann án þess þó að skapa sér færi af einhverju ráði. Það litla sem þeir sköpuðu sér kom í formi langskota sem annaðhvort fóru í varnarmenn HK sem voru þéttir og fastir fyrir sem gerði það að verkum að KR komst lítið inn í teiginn. Þau skot sem smugu í gegn varði Arnar Frey í markinu og gerði það mjög vel.

Á 41. mínútu dró svo til tíðinda þegar Finnur Tómas Pálmason og Sigurpáll Sören Ingólfsson gerðu sig seka um fráleitt samskiptaleysi. Finnur Tómas ætlaði að skalla boltann til baka á Sigurpál sem var komin nánast alveg ofan í hann þannig að boltinn fór yfir markvörðinn. Atli Þór Jónsson áttaði sig og straujaði framhjá Sigurpáli og potaði boltanum í autt netið og HK komið yfir. Atli þurfti síðan að fara af velli en hann tognaði víst í læri við að teygja sig í boltann þegar hann skoraði.

Fyrri hálfleik lauk og staða 0-1 fyrir gestina.

Seinni hálfleikur var með sama móti, KR var með boltann, sköpuðu sér fá færi og Arnar Freyr varði það sem kom á markið. Á 65. mínútu nýttu HK-ingar sér sitt annað færi nánast í leiknum. Boltanum var þá lyft á teiginn þar sem Atli Hrafn Andrason var einn og óvaldaður og skallaði hann boltann fyrir fætur Arnþórs Ara Atlasonar sem einnig var einn og óvaldaður og skaut hann auðveldlega í markið.

KR reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en áður en þeir náðu því syrti heldur betur í álinn. Kristján Flóki Finnbogason fékk beint rautt spjald fimm mínútum eftir seinna mark HK fyrir að henda sér í tæklingu með takkana á lofti. Elías Ingi dómari leiksins var mjög viss í sinni sök og eftir að hafa séð þetta aftur er blaðamaður það líka.

KR náði inn marki en það skoraði Atli Sigurjónsson beint úr hornspyrnu en það verður að segjast að þær voru hættulegustu færi heimamanna í dag en Arnar Freyr í markinu þurfit að kýla nokkrar þannig frá sem stefndu í markið. Þetta lyfti andanum en tveimur mínútum seinna fékk Moutaz Neffati sitt seinna gula spjald og KR því tveimur færri. Þá loksins kviknaði á þeim að mati þjálfara þeirra en allt kom fyrir ekki. HK var nær því að loka leiknum með þriðja marki sínu í lok leiksins.

Atvik leiksins

Fyrsta mark leiksins fær þann heiður að vera atvik leiksins. KR var mikið með boltann og HK gerðu sig bara alls ekki líklega til að skora fyrr en að þeir fengu þetta mark að gjöf. Þá náttúrlega þurftu heimamenn að færa sig framar á völlinn og skapaði færi fyrir gestina.

Stjörnur og skúrkar

Það er mjög erfitt að velja stjörnur í liði HK þar sem þetta var sannkölluð liðsframmistaða sem skóp þennan sigur. Arnar Freyr Ólafsson markvörður verður þó tekinn út fyrir sviga hérna sem stjarna en hann þurfti þó nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum til að halda KR-ingum frá því að skora.

Gregg Ryder var mjög ósáttur við sína menn en við verðum að líta aftur til fyrsta marksins til að finna skúrka. Finnur Tómas og Sigurpáll verða að læra af þessum mistökum sínum og gera það væntanlega en þetta var afleitt.

Stemmning og umgjörð

Stemmningin var góð í dag. Ágætlega mætt og Miðjan og ungliðahreyfingin úr efri byggðum Kópavogs sungu nánast allan tímann. Völlurinn hjá KR grænkar og verður orðinn góður innan tíðar og ég held að hann hafi ekki haft nein áhrif á þennan leik fyrir utan það kannski að menn eru þreyttari að hlaupa á venjulegu grasi.

Dómarinn

Elías Ingi Árnason vann sér ekki inn áðdáendur KR megin í dag skal ég segja ykkur. KR reyndu að vera fastir fyrir og fengu öll spjöldin í dag. Þau voru öll rétt held ég og svo voru rauðu spjöldin alveg hárrétt. Ekkert út á hann að setja.

Viðtöl:

Ómar Ingi: Þetta var ekki einsdæmi í síðustu umferð

Þjálfari HK gat leyft sér að vera mjög ánægður með sína menn í kvöld. Hann talaði mikið um að framlagið í kvöld hafi verið mjög gott.

„Ekki spurning að þetta hafi verið frábær sigur. Það er ógeðslega sætt að vinna hérna í Frostaskjólinu, við fengum ekki að gera það í fyrra en þá unnum við þá á Nesinu. Þannig að þetta er bara snilld. Framlagið hjá drengjunum var bara geðveikt.“

Hvað voru HK-ingar að gera rétt að mati Ómars.

„Kraftur barátta og vilji sem við höfum náð að kalla fram í þessum leik og þeim síðasta. Þar sem við náum að vinna saman og erum allir að gefa eins mikla orku og við getum í leikina. Það var einhver misskilningur um að annað gengi upp í fyrstu leikjunum. Við setjum viðmið fyrir okkur og fólkið sem fylgist með okkur og við verðum að halda okkur eins nálægt þeim viðmiðum eins og við getum.“

HK fékk ekki mörg færi í dag en það hlýtur að vera gulls ígildi að nýta þau færi sem þó koma.

„Algjörlega. Mér fannst ekki vera mikið af færum í þessu og svo fór þetta í einhverja vitleysu hérna í lokin þegar þeir eru orðnir tveimur færri. Okkur gekk illa með löngu boltana þeirra í því en að sama skap gekk okkur illa að loka þessu.“

Hvað gerir þessi sigur fyrir HK?

„Þetta gefur okkur sjálfstraust til að halda áfram. Þetta var ekki einsdæmi í síðustu umferð og gefur líka sjálfstraust fyrir komandi verkefni.“

Er þá ekki líka hægt að líta á það þannig að HK sé komið með smá andrými varðandi liðin sem eru á botninum?

„Það róar ekki taugarnar. Við gerðum þau mistök í fyrra að sjá einhverja forystu sem eitthvað andrými. Þá var liðið talsvert lengra á tímabilið þegar mönnum fór að líða fullvel með stigafjöldann sinn. Þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að við föllum ekki í þá gryfju aftur.“

Arnþór Ari: Svo er maður allt í einu kominn með sjö stig

Annar af markaskorurum HK í dag var á því að liðsheildin hafi skapað þetta fyrir sína menn og taldi að svona sigrar gæfu liðin helling til að halda áfram, líkt og þjálfari hans.

„Ég held að þetta sé bara alvöru liðsheild sem við sóttum síðasta leik á móti Víking. Sýndum hvað við getum gert þar og gefur okkur sjálfstraust inn í mótið. Við mættum bara með sama leikplan í þennan leik og erum að gera þetta sem lið og það er erfitt að spila á móti okkur. Sterk liðsheild sem skilaði þessu í dag.“

HK fékk ekki mörg færi en tók þau sem gáfust.

„Sammála því að færin hafi ekki verið mörg. Svo þegar við erum orðnir tveimur fleiri þá eigum við að gera út um leikinn, fengum rosalega góð færi þá. Þetta snýst um að nýta færin og skora meira en hinir. Þá erum við sáttir.“

Hvað gerir þessi sigur fyrir HK?

„Bara ótrúlega mikið. Við erum búnir að vinna tvo leiki í röð og í fótbolta snýst þetta mjög mikið um sjálfstraust. Þetta gefur okkur mikið sjálfstraust og svo er maður allt í einu kominn með sjö stig og við getum mætt fullir sjálfstrausts í leikinn við Val næst.“

Skiptir það þá ekki líka máli að vera komnir tveimur leikjum frá liðunum í fallsætunum?

„Klárlega. Við viljum alltaf vera sem sem lengst frá þeim sætum. Að sama skapi þá erum við með háleit markmið og við vitum hvað við getum þegar við spilum sem lið. Það er samt bara næsti leikur og áfram gakk.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira