Körfubolti

Martin og fé­lagar skelltu í lás gegn Bæjurum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin Hermannsson kom aftur til Alba Berlin frá Valencia í vetur.
Martin Hermannsson kom aftur til Alba Berlin frá Valencia í vetur. getty/Bruno Dietrich

Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlin unnu feykilega góðan sigur á toppliði Bayern München, 59-53, þegar liðin mættust í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Þetta var annar sigur Alba Berlin í röð en liðið er í 2. sæti deildarinnar með 26 sigra og sjö töp. Bayern er á toppnum með 27 sigra og sex töp.

Lítið var skorað í leiknum í Berlín í kvöld. Heimamenn voru yfir í hálfleik, 30-28, en í 3. leikhluta voru gestirnir sterkari. Þeir unnu hann, 20-9, og leiddu með níu stigum fyrir 4. leikhlutann, 39-48.

Þar voru Martin og félagar miklu sterkari og gjörsamlega lokuðu vörninni. Bayern skoraði aðeins fimm stig í 4. leikhluta en Alba Berlin tuttugu. Heimamenn unnu því leikinn með sex stiga mun, 59-53.

Martin skoraði fimm stig og gaf tvær stoðsendingar í leiknum. Íslenski landsliðsmaðurinn klikkaði á þremur af fjórum tveggja stiga skotum sínum en hitti úr eina þriggja stiga skoti sínu. 

Það kom á besta tíma, eða þegar 94 sekúndur voru eftir af leiknum. Hann kom Alba Berlin þá í 57-53.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×