Sport

Harð­lega gagn­rýndur fyrir að stöðva ekki bar­daga: „Líf fólks er í húfi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jalin Turner lætur höggin dynja á Bobby Green.
Jalin Turner lætur höggin dynja á Bobby Green. getty/Josh Hedges

Dana White, forseti UFC, er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt dómara harðlega fyrir að vera of lengi að stöðva bardaga Jalins Turner og Bobbys Green um helgina.

Kerry Hatley fékk bágt fyrir að stöðva ekki bardagann þegar Turner lét höggin dynja á Green þegar hann lá í striganum og var ófær um að verja sig.

„Hann veit að hann gerði mistök í kvöld og líður ekki vel með það svo þetta er óheppilegt,“ sagði White um atvikið. „Þetta var klárlega slæmt stopp.“

Fyrrverandi heimsmeistarinn Michael Bisping gekk enn lengra í gagnrýni sinni á Hatley.

„Hann sneri manninn niður og var laminn af heimsklassa, kraftmiklum bardagakappa. Kerry Hatley er frábær dómari en eftir hverju í andskotanum var hann að bíða? Líf fólks og heilsa þess til frambúðar er í húfi. Þetta var viðbjóðslegt og skammarlegt,“ sagði Bisping sem fjallaði um bardagann á ESPN.

Sjálfur sagðist Turner hafa velt fyrir sér hvort bardaginn hefði átt að vera stöðvaður en óttaðist að Green myndi svara fyrir sig og snúa dæminu sér í vil.

„Bobby er grjótharður kappi. Það er eins og það er. Hann er heill og var eðlilegur eftir bardagann. Við áttum gott spjall svo ég var ánægður með að hann var í góðu ástandi,“ sagði Turner sem hann sinn fjórtánda sigur í 21 bardaga um helgina. Hann hafði tapað tveimur bardögum í röð fyrir viðureignina gegn Green.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×