Erlent

Evrópu­þing­menn greiða at­kvæði um um­deilda lög­gjöf

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
160 mannréttindasamtök hafa mótmælt löggjöfinni.
160 mannréttindasamtök hafa mótmælt löggjöfinni. Getty/Santiago Urquijo

Evrópuþingið mun í dag ganga til atkvæðagreiðslu um nýja löggjöf um móttöku flóttamanna, þar sem markmiðið er að samræma vinnulag milli ríkja.

Stuðningsmenn frumvarpsins segja það munu slá vopnin úr höndum öfga hægri afla en gagnrýnendur þess segja frumvarpið þvert á móti sniðið að hugmyndafræði þeirra.

Ylva Johansson, framkvæmdastjóri innanríkismála hjá ESB, sagði í samtali við blaðamenn í gær að umræddar „úrbætur“ miðuðu að því að taka á flóttamannastraumnum með skipulögðum hætti. 

Malin Björk, Evrópuþingmaður sænska Vinstriflokksins, sagði hins vegar um að ræða útfærslu á hugmyndafræði öfga hægrisins. „Getum við látið okkur detta eitthvað í hug sem er meira ómanneskjulegt? Með þessu er verið að taka verstu aðferðirnar í Evrópu og stofnanavæða þær.“

Lögin eiga meðal annars að stytta málsmeðferðartímann, fela í sér samræmda ferla á öllum landamærum og stofnun Eurodac, miðlægs gagnagrunnar sem mun gera aðildarríkjunum kleift að fletta einstaklingum upp og kanna hvort þeir hafa sótt um hæli annars staðar.

Yfir 160 mannréttindasamtök hafa mótmælt löggjöfinni en þau hafa meðal annars gagnrýnt að með þeim verði einstalingum og fjölskyldum smalað í ómannúðlegar móttökumiðstöðvar og vegið að mannréttindum og virðingu fólks.

Stephanie Pope, sérfræðingur hjá Oxfam, segir löggjöfina ekki hafa neitt að gera með mannréttindi, heldur snúist hún um hindranir, varðhald og brottflutning. Um sé að ræða stefnu sem byggi á pólitískri hugmyndafræði, frekar en staðreyndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×