Lífið

Hefur miklar á­hyggjur af á­huga ungra stúlkna á snyrti­vörum

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Sara Snædís segir það valdeflandi að æfa í hópi kvenna. Hún hefur því efnt til viðburðar um miðjan maí þar sem konur koma saman og setja sig í fyrsta sæti, líkamlega og andlega. 
Sara Snædís segir það valdeflandi að æfa í hópi kvenna. Hún hefur því efnt til viðburðar um miðjan maí þar sem konur koma saman og setja sig í fyrsta sæti, líkamlega og andlega.  Anna Goryacheva

„Í gegnum tíðina hefur konum og körlum verið sagt að lifa, borða og hreyfa sig á sama hátt frá degi til dags án tillits til þess hve ólík hormónanakerfi þeirra eru. Hormónin okkar hafa nefnilega áhrif á ótal margt í lífi okkar eins og andlega líðan, orkustig, kynhvöt, úthald, fæðuval, svefn og fleira,“ segir Sara Snædís Ólafsdóttir heilsuþjálfari og stofnandi Withsara.

Sara brennur fyrir heilsu kvenna og leggur mikið upp úr því að veita konum innblástur til að hlúa vel að sér í amstri dagsins, gefa sér tíma fyrir sjálfar sig og leggja sig fram við að tileinka sér heilsusamlegan lífstíl. Þá segir hún að vitundarvakning hafi orðið á síðastliðnum árum um hormónaheilsu kvenna og mikilvægi þess að samræma tíðahringinn við daglegar venjur (e. cycle syncing).

Anna Goryacheva

Að samræma líf sitt í takt við tíðahringinn

„Þegar ég fór fyrst að skoða og kafa dýpra í hormónaheilsu kvenna og tengslin við tíðahringinn þá opnaðist eiginlega nýr heimur fyrir mér. Upphaflega lærði ég um þetta þegar ég var í heilsuþjálfaranámi við IIN (Institute for Intigrative Nutrition) árið 2019 þar sem fjallað var mikið um hormónaheilsu kvenna. Þá áttaði ég mig á því að þarna væri eitthvað sem ég hafði ekki skoðað almennilega áður. Nokkru síðar byrjaði mikil umræða á meðal heilsufræðinga um „cycle syncing“ sem er í raun og veru heitið yfir það þegar við samstillum lífstílinn okkar, hreyfingu og mataræði við tíðahringinn. Tíða­hringurinn getur haft rosa­lega mikil á­hrif á okkur,“ segir Sara.

„Cycle-syncing“ leiðir til þess að meira jafnvægi verður á hormónunum okkar og við upplifum almennt betri heilsu á tíðahringnum, minni þreytu, meiri orku, minni tíðaverki og aukna vellíðan.“
Anna Goryacheva

Hormónakerfi kvenna sveiflukenndara en karlmanna

Hormónakerfi kvenna eru miklu sveiflukenndari en hjá körlum vegna þess að hormónin sveiflast í takt við tíðahringinn sem er um það bil 28 dagar en hjá körlum er hann stöðugari og hver hringur 24 klst.

„Á þessu tímabili er líkamleg virkni og líðan breytileg eftir því hvar konan er stödd í tíðahringnum, sem hefur til dæmis áhrif á efnaskipti og heilastarfsemi. Vegna þess hversu miklar sveiflur eru á hormónum kvenna í tíðamánuðinum er enn mikilværaga að þær taki tillit sveiflanna í daglegu lífi,“ segir Sara:

„Það gæti til dæmis ekki hentað að fylgja nákvæmlega sama mataræði, æfingaáætlun og vinnuálagi allan mánuðinn heldur huga að hverju skeiði fyrir sig og læra að lifa í takt við tíðarhringinn. Taugakerfið og blóðsykurinn okkar spilar líka stóran þátt í því hvernig tíðahringurinn okkar er.“ 

Anna Goryacheva

Fræðsla fyrir ungar stúlkur mikilvæg

Sara segir mikilvægt að fræða ungur stúlkur um heildrænan lífstíl þar sem þær muni búa að því ævilangt.

„Að mínu mati ættu ungar stúlkur að fá fræðslu um hormónakerfið sitt og hversu mikilvægt það er að hlúa að sér og skapa sér venjur sem styðja við kerfið okkar í staðin fyrir að vinna á móti því. Ég vona innilega að sú bylting komi í framhaldinu af þessari vitundarvakninu um tíðahring og hormón kvenna að ungar stúlkur fái fræðslu sem þær geta nýtt sér til framtíðar sem vinnur með tíðahringnum þeirra og getur komið í veg fyrir ýmis vandamál,“ segir Sara.

Að sögn Söru er áhugi ungra stúlkna á snyrtivörum mikið áhyggjuefni, ekki aðeins vegna þess að efnin geta verið skaðleg fyrir unga og óþroskaða hún heldur einnig vegna innihaldsefnanna.

„Vörurnar innihalda oft á tíðum algjöra efnasúpu sem getur haft mikil áhrif á hormónakerfið sem ég hef miklar áhyggjur af. Ég er farin að ræða við mínar stelpur um heildrænan lífstíl og allt það sem hefur jákvæð áhrif á okkur,“ segir Sara sem sjálf á tvær stúlkur sem eru sex og níu ára.

„Ég tel það mikilvægt að byrja umræðuna snemma, fræða þær og byggja sterkan grunn af þekkingu fyrir framtíðina.“ 
Anna Goryacheva

Lítil skref í rétta átt

Tíðahringurinn skiptist upp í fjóra fasa og við viljum miða við að samræma hreyfingu, næringu og aðra lífstílstengda þætti við hvern fasa tíðahringsins. 

Gott er að hafa í huga að allan tíðarhringinn er nauðsynlegt að borða vel af próteini, hollri fitu og kolvetnum, gera hluti sem hjálpa við að róa taugakerfið, reyna að hafa gott jafnvægi á blóðsykrinum og stunda reglulega hreyfingu.

„Þar sem hormónin okkar eru sveiflukennd þá skiptir máli að huga að því að æfa í takt við það,“ segir Sara.

Mörgum gæti þótt yfirþyrmandi tilhugsun að breyta lífstílnum sínum. En með litlum skrefum og raunhæfum markmiðum er hægt að bæta lífstílstílinn svo um munar að sögn Söru.

„Það er þetta eins og allt annað þegar kemur að breytingum. Þetta er lífstíll sem þú ert að kynna hægt og rólega inn í líf þitt og ber að varast að setja óraunhæfa pressu sem veldur kvíða. Settu þér þess í stað markmið að æfa tvisar til þrisvar sinnum í viku og stuttan tíma í senn. Þegar þú hefur náð góðum tökum og takti í þeim efnum er hægt að bæta við æfingar eða huga að breyttu mataræði, síðan taugakerfið, og koll af kolli,“ segir Sara.

Nánari upplýsingar og prógramm um In Sync má nálgast hér.

Anna Goryacheva

Fjórir fasar tíðahringsins

Fyrsti fasinn (Follicular phase) fyrstu 7-10 daga eftir blæðingar, þá er orkustigið okkar hátt og hér er tilvalið að velja æfingar sem taka vel á eins og styrktar- og þolæfingar, HIIT, hlaup, Pilates og Barre. Það er nauðsynlegt að fylgjast vel með járnbúskapnum á þessum tíma og taka C vítamín með til að upptakan á járninu verði betri. Þar sem við erum orkumeiri hér þá er mikilvægt að styðja við það með kolvetnisríkri fæði, hollri fitu og próteini.

Annar fasinn er þegar við erum á egglosi sem er yfirleitt bara 24 tímar en mikilvægur tími til þess að huga vel að sér og nota orkuna sem við erum með í líkamanum í orkumiklar styrkaræfingar og margar kjósa að bóka mikilvæga fundi og nota tímann hér til þess að sinna skapandi vinnu í sínu starfi.

Í gegnum fyrstu tvo fasana er kórtisól levelið okkar hærra og því er nauðsynlgt að róa taugakerfið með hugleiðslu, öndun, göngutúrum og öðrum æfingum sem hægt er að lesa meira hér
Anna Goryacheva

Þriðji fasinn (luteal phase) kemur á eftir egglosi og er yfirleitt 10-14 daga og hér er algengt hjá konum að þær finni fyrir minni orku, verri andlegri líðan, minni kynhvöt og breyttu fæðuvali. Með „Cycle syncing” erum við að reyna að minnka þessa líðan, og minnka það að orkustigið detti svona niður á þessum tíma. Hér er mælt með að stunda hreyfingu sem dregur ekki úr orkunni, sem er þegar lítil, og velja frekar hreyfingu sem gefur okkur orku eins og mjúkar styrktaræfingar eins og Pilates, Yoga, göngutúr og sund. Við brennum 200-300 fleiri kalóríum á þessum tíma og þvi mikilvægt að mataræðið okkar sé próteinríkt, fituríkt og inniheldur góð kolvetni. 

Mataræði sem inniheldur mikið kalsíum, magnesíum og B-vítamíni getur hjálpað við að draga úr komandi tíðarverkjum.

Fjórði fasinn er þegar við erum á blæðingum og hér er mikilvægt að taka þvi rólega, gera mjúka jóga tíma eða teygjur, fara snemma að sofa og næra sig vel. Í þessu hraða samfélagi sem við lifum í þarf að leyfa sér stundum að taka hlutina á hægara tempói, og ef einhverntíman þá er það þegar við erum á blæðingum.

Ef við erum meðvitaðar um í hvaða fasa við erum í hverju sinni, högum okkur í takt við þann fasa með hreyfingu, mataræði og öðrum þáttum þá hjálpum við líkamanum að finna betra hormónajafnvægi og ýtum undir meiri vellíðan í gegnum allan tíðarhringinn með minni tíðarverkjum, hærra orkustigi, betra skapi og almennt meira jafnvægi.

Konur kúpla sig út í fallegu umhverfi 

Sara hefur efnt til viðburðar, Wellness retreat, fyrir konur á Hótel Geysi um miðjan maí mánuð ásamt áhrifavaldinum og athafnakonunni Elísabetu Gunnars. Markmið viðburðarins er að fá hóp kvenna saman, kúpla sig út úr hversdagsleikanum og setja sjálfa sig í fyrsta sæti.

„Við fáum svo sjaldan bara að vera. Þess vegna ákvað ég að para mig við Elísabetu Gunnars þar sem hún er mikil talskona þess að kúpla sig út úr hversdagsleikanum og hlúa að sér. Það er svo svo eflandi þegar konur æfa saman í hóp. Þar sem ég hef kennt hóptíma í tíu ár áður en ég stofnaði Withsara, þá finnst mér alveg einstakt tækifæri að fara af skjánum og leiða stóra hópa í gegnum Withsara æfingarnar, finna orkuna í salnum, ganga á milli og aðstoða. Mínar æfingar eru þannig uppbyggðar að þær henta öllum getustigum þannig að hvort sem að þú sért byrjandi eða lengra komin, æfingarnar eru fyrir þig,“ segir Sara:

„Gaman er að segja frá því að mæðradagurinn er 12. maí þannig að þessi helgi er kjörin til þess að gera vel við mæður.“ Nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast hér.


Tengdar fréttir

Morgunrútína Söru Snædísar sem eykur afkastagetu og orku

Sara Snædís Ólafsdóttir, heilsuþjálfari og stofnandi Withsara, segist hafa tileinkað sér góða morgunrútínu til að viðhalda góðum venjum dag frá degi. Hún hafi í kjölfarið orðið afkastameiri, fundið fyrir jafnari orku og liðið almennt betur. 

Komdu orkunni þinni í jafnvægi

„Hugmyndafræði Ayuraveda um að borða meðvitað er sú aðferð sem allir geta fylgt til þess að bæta matarvenjur sínar, lifað heilbrigðari lífi sem styður við meltingarkerfið og orkuna,“ segir þjálfarinn Sara Snædís Ólafsdóttir.

Hvernig getur þú bætt mataræðið þitt?

„Í gegnum tíðina hafa konur deilt með mér að þær langi til þess að bæta mataræðið sitt. Þær hafa spurt mig hvernig þær geti bætt það án þess að fara á strangt mataræði,“ segir þjálfarinn Sara Snædís Ólafsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×