Innlent

Segir upp hjá RÚV og snýr sér að pólitík

Árni Sæberg skrifar
Sunna Valgerðardóttir hefur verið ráðin til þingflokks VG.
Sunna Valgerðardóttir hefur verið ráðin til þingflokks VG. Vinstri græn

Sunna Valgerðardóttir, frétta- og dagskrárgerðarkona á RÚV, hefur verið ráðin til þingflokks Vinstri grænna. Hún hefur þegar látið af störfum hjá RÚV.

Í tilkynningu frá Vinstri grænum segir að Sunna hafi víðtæka reynslu úr fjölmiðlum hvar hún hafi starfað undanfarin fimmtán ár og sérhæft sig í pólitískum fréttum, þar sem hennar áhugi liggi. 

Hún hafi starfað lengst af hjá RÚV og sinnt þar ýmsum hlutverkum, meðal annars sem fréttamaður, vaktstjóri, svæðisstjóri og nú síðast umsjónarkona fréttaþáttanna Þetta helst og Vikulokanna. Sunna hafi verið blaðamaður á Fréttablaðinu, Kjarnanum og fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar þar sem hún sá um fréttaskýringaþáttinn Kompás. Hún hafi tvívegis unnið til Blaðamannaverðlauna fyrir störf sín, árin 2012 og 2022.

Lillý Valgerður Pétursdóttir, Þorsteinn J. Vilhjálmsson, Sunna Valgerðardóttir og Helgi Seljan hlutu blaðamannaverðlaun ársins 2022.Vísir/Erla

„Það eru ótrúlega spennandi tímar fram undan í pólitíkinni og ég hlakka til að takast á við þá hinum megin borðsins. Blaðamennskunni fylgja þau forréttindi að geta bent á það sem betur má fara og látið svo aðra um að laga. Það er ekki auðvelt að segja skilið við þann dýrmæta skóla sem hefur kennt mér svo margt, en breytingar eru af hinu góða og þessi er tímabær,“ er haft eftir Sunnu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×