Skoðun

Heimilis­leysi blasir við ör­yrkjum

Svanberg Hreinsson skrifar

Á Íslandi er húsnæðisverð í hæstu hæðum og þeir sem ekki eiga efni á eigin húsnæði sitja fastir í fátæktargildru. Samkvæmt skýrslu ÖBÍ réttindasamtaka um húsnæðismál fatlaðs fólks eru öryrkjar mun líklegri en aðrir samfélagshópar til að festast á leigumarkaði. Fáir öryrkjar eiga fasteign og þeir öryrkjar sem eiga fasteign eignuðust hana flestir áður en þeir urðu öryrkjar. Húsaleiga hefur hækkað um rúmlega 160% á undanförnum áratug og leigjendur horfa upp á kaupmátt sinn rýrna ár frá ári samhliða hækkandi leiguverði.

Þessa þróun þekki ég vel. Sem öryrki greiddi ég um síðustu mánaðamót 62% af ráðstöfunartekjum mínum í húsaleigu. Síðan greiddi ég 3,5% af mínum tekjum til lífsnauðsynlegra lyfjakaupa. Sem sagt, 65,5% í leigu og lyf. Þá á eftir að greiða fyrir hita, rafmagn, síma og internet, tryggingar og mat. Þrátt fyrir að lifa mjög hógværu lífi, þá mun óbreyttur húsnæðismarkaður setja mig á götuna. Ég er ekki einn í þessari stöðu. Þúsundir öryrkja glíma við svipaðar og jafnvel erfiðari aðstæður.

Undirstaða alls stöðuleika er húsnæðisöryggi. Fátækt fólk á Íslandi, öryrkjar, einstæðir foreldrar og fleiri jaðarsettir hópar hafa lítið sem ekkert húsnæðisöryggi. Fjölskyldur sem ekki eiga fasteign þurfa margar að flytja á hverju ári, líkt og á fardögum fyrri tíða. Þetta þýðir að börn leigjenda festa engar rætur, upplifa engan stöðuleika. Þeirra líf mun litast af baráttu foreldra þeirra fyrir þaki yfir höfuðið

Nú hefur sitjandi ríkisstjórn verið við völd í nær sjö ár og gert lítið annað en að skilja húsnæðismálin eftir í sætum graut. Af hverju í ósköpunum er ekki búið að grípa til aðgerða sem skila raunverulegum árangri? Núverandi húsnæðisstefna stjórnvalda ýtir undir frekari verðbólgu, aukna stéttaskiptingu og rótleysi barnafjölskyldna. Fátækt vex og kaupmáttur dregst saman.

Vonleysið sem öryrkjar upplifa er í boði ríkisstjórnarinnar.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×