Körfubolti

NBA meistararnir réðu ekki við hinn magnaða Anthony Edwards

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Edwards var frábær í sigri Minnesota Timberwolves í nótt alveg eins og hann hefur verið í síðustu leikjum liðsins í úrslitakeppninni.
Anthony Edwards var frábær í sigri Minnesota Timberwolves í nótt alveg eins og hann hefur verið í síðustu leikjum liðsins í úrslitakeppninni. Getty/Matthew Stockman

Minnesota Timberwolves er komið í 1-0 á móti ríkjandi NBA meisturum Denver Nuggets eftir sigur í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar.

Maður kvöldsins var án vafa hinn ungi en magnaði Anthony Edwards. Edwards setti nýtt persónulegt met í úrslitakeppni með því að skora 43 stig í 106-99 sigri Timberwolves.

Hann fékk líka mjög góða hjálp í fjórða leikhlutanum þegar Naz Reid, besti sjötti maður deildarinnar í vetur, skoraði fjórtán af sextán stigum sínum.

„Þetta snýst ekki um að láta aðra vita hverjir við erum. Við vitum hverjir við erum,“ sagði Anthony Edwards en Minnesota er komið í gegnum fyrstu umferðina í fyrsta sinn í tvö áratugi.

„Við erum að springa út og á meðan við styðjum hvorn annan í þessu þá skiptir eiginlega engu máli hvað öðrum finnst,“ sagði Edwards.

Hann grínaðist síðan með það að hann hafi örugglega ekki verið fæddur þegar Kevin Garnett hjálpaði Timberwolves í úrslit Vesturdeildarinnar í fyrsta og eina skiptið árið 2004. Edwards er ungur en ekki alveg svo ungur. Hann fæddist í ágúst 2001.

Auk þess að skora 43 stig og hitta úr 17 af 29 skotum sínum þá var Edwards með 7 fráköst, 3 stoðsendingar og bara einn tapaðan bolta. Hann hitti úr 5 af 5 skotum sínum í upphafi leiks þar sem Úlfarnir komust í 18-4. Karl-Anthony Towns skoraði 20 stig og Mike Conley var með 14 stig og 10 stoðsendingar.

Edwards og félagar eru á miklu skriði eftir að hafa unnið Phoenix Suns 4-0 í fyrstu umferðinni og nú eru þeir búnir að vinna fyrsta leikinn á útivelli. Hann hefur nú skorað 119 stig í síðustu þremur leikjum liðins eða 39,6 að meðaltali.

„Ef ég segi alveg eins og er þá er hann sérstakur leikmaður. Ég ber mikla virðingu fyrir honum. Hann getur gert allt á vellinum,“ sagði Nikola Jokic. Hann var sjálfur með 32 stig, 9 stoðsendingar, 8 fráköst og 3 stolna bolta.

Michael Porter Jr. var með 20 stig og Jamal Murray bætti við 17 stigum. Denver fór tiltölulega létt með Los Angeles Lakers í fyrstu umferðinni en nú mun reyna á liðið á móti þessu öfluga Timberwolves liði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×