Tónlist

„Drull sama hvað ein­hver apa­köttur segir“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Erpur Eyvindarson ræddi við blaðamann um skrautlegan feril sinn. Hér er hann með kettlingana sína á heimili sínu.
Erpur Eyvindarson ræddi við blaðamann um skrautlegan feril sinn. Hér er hann með kettlingana sína á heimili sínu. Vísir/Vilhelm

„Mér er drull sama hvað ókunnugu fólki finnst en þú hlustar auðvitað á fólk sem er að tala við þig af því þeim þykir vænt um þig,“ segir rapparinn og listamaðurinn Erpur Eyvindarson. Hann hefur verið viðloðinn tónlistarsenuna síðastliðin 25 ár og fagnar þeim áfanga með stórtónleikum ásamt hljómsveit sinni Rottweiler í Laugardalshöll næstkomandi föstudagskvöld. Blaðamaður hitti Erp á heimili hans í Kópavogi þar sem hann fór yfir ferilinn og bauð upp á líbanskt kaffi.

„Mesta rokk og ról ruglið“

Erpur er nýlega kominn heim frá þriggja mánaða ferð til Indónesíu en eins og frægt er orðið tekur hann nokkra mánaða edrú tímabil á ári hverju og ferðast. Hann er ferskur á því og hlakkar mikið til tónleikanna.

„Rottweiler vann Músíktilraunir árið 2000 og fyrsta platan kemur út 2001. Við ætluðum að halda þessa tónleika í Covid en það gekk ekki upp. Þá ákváðum við að miða við fyrsta giggið okkar sem var á Samfés fyrir 25 árum. 

Ég, Lúlli Palli og Bent erum kjarninn í Rottweiler en við verðum auðvitað líka með gesti, lið sem hefur alltaf fylgt okkur. Við erum að fara að taka fullt af efni, þar á meðal gömul lög sem við höfum aldrei flutt á sviði.“

XXX-Rottweiler hundarnir Erpur, Lúlli Palli og Bent.Aðsend

Síðastliðin 25 ár hafa að sögn Erps verið viðburðarík.

„Þetta er búið að vera rosaleg rússíbanareið og við höfum alltaf verið samheldnir. Hljómsveitir springa oftast út af peningum en við höfum alveg frá upphafi verið mjög kommúnískir, einn fyrir alla og allir fyrir einn.“

Þegar hljómsveitin byrjaði hafði Erpur vakið athygli sem karakterinn Johnny Naz en frá upphafi hafa þeir alltaf skipt jafnt sín á milli.

„Svo snýst þetta auðvitað um að tala alltaf saman og vera hreinskilnir. En þessi vegferð er eitthvað mesta rokk og ról ruglið sko, þó að við séum Hip Hop. 

Ég veit ekki hvað gerist þegar að ævisagan mín kemur út sko, Jesús Kristur.“

Tuttugu rottweiler hundar í aftursætinu

Hann segir erfitt að nefna ákveðna hluti sem standa upp úr.

„Hvert einasta gigg felur í sér eitthvað kjaftæði. Maður pælir líka ekkert í því fyrr en það líður ákveðinn tími frá því og maður byrjar að hugsa: Djöfull var þetta furðulegt. 

Þegar við byrjuðum að gigga þá er ég náttúrulega eldri, strákarnir eru um sextán ára og ég er rúmlega tvítugur. Sá aldursmunur skiptir ekki máli þegar að þú ert örlítið eldri en á þessum tíma þá er það geðveikur munur.“

Það var mikið í gangi í lífi Erps á þessum tíma og gegndi hann meðal annars hlutverki ritstjóra hjá íslenska tónlistarblaðinu Undirtónum.

„Ég var alltaf rúllandi um á Undirtóna bíl. Á þessum tíma voru svo margir í kringum Rottweiler og ég var bara með einhverja tuttugu rottweiler „hunda“ aftur í einhverjum sendiferðabíl og það voru ekki einu sinni sæti, brunandi á milli gigga. 

Ég hef aldrei verið sérstaklega aldursmeðvitaður þannig að mér fannst alveg rétt að strákarnir kæmu bara með mér á djammið eftir giggin. Bent gat líka oft logið því að hann væri ég en Lúlli átti erfiðara með það.

Þessir tímar voru mjög fyndnir. Þeir voru náttúrulega bara nýkomnir úr grunnskóla og við bjuggum til hlutafélag þar sem allir voru með mánaðarkaup. Það var auðvitað sérstakt, að vera komnir með geggjaðar mánaðartekjur á meðan þeir voru að dúddast í náminu.“

Erpur, Lúlli Palli og Bent hafa verið samheldnir frá upphafi. fréttablaðið/arnþór

Má ekki kjafta frá leiknum

Erpur virðist sömuleiðis halda aftur að sér þegar farið er yfir gamla tíma.

„Nú er ég alltaf að passa að segja ekki of mikið. Það er náttúrulega margt alveg galið og það má ekki kjafta frá leiknum. En það er margt alveg klikkað.

Við byrjum að spila á milljón upp úr 2000. Það eru engir snjallsímar, dýrasti síminn er eitthvað Nokia einn tveir og rassgat. 

Það var ótrúlega mikið í gangi á giggunum og uppi á sviði sem enginn myndi gera í dag. Píur á túttunum eins og ekkert væri og dúddar að taka draslið út. Ég sver það, þetta var svo mikið kjaftæði en okkur var drull, það var enginn að skaða neinn.

Giggin voru ótrúlega mikið svona, algjör sturlun. Það hefur ekkert breyst nema að fólk er meðvitaðra út af snjallsímunum. Fólk er meðvitaðra um hvað það gerir uppi á sviði. 

Einu sinni drapst Lúlli áfengisdauða uppi á sviði í miðju prógrammi. Hálfa tónleikana lá hann bara á sviðinu eins og einhver marglytta. 

Við vorum náttúrulega ótrúlega margir þarna, 10-15 manns sem gátu alltaf hlaupið í manns stað. Við Bent vorum rappandi og við vorum með tvo skífuþeytara. DJ Gummó og Krissa Vald fótboltagaur úr Fylki. Við vorum með tvo til að hlaupa í skarðið ef annar þeirra myndi drepast áfengisdauða á tónleikunum. Alltaf tilbúnir fyrir hvað sem er og þetta gekk alltaf upp.“

Erpur segir að Rottweiler hafi alltaf verið tilbúnir fyrir hvað sem er og þeir hafi aldrei misst af giggi. Vísir/Vilhelm

Erfiðast að þurfa að „halda kjafti“ í heilan dag

Erpur segist í upphafi ferilsins hafa sett sér gildi sem hann lifir enn eftir. Þá segir hann að hvorki Rottweiler né hann sjálfur sem sóló listamaður hafi nokkurn tíma ekki mætt á gigg, sama hvað.

„Ég hef til dæmis misst röddina þrisvar, á hræðilegum tíma. Einu sinni var ég búinn að spila yfir Verslunarmannahelgina fimmtudag, föstudag og laugardag og var kominn til Akureyrar á sunnudeginum og alveg búinn að missa röddina. Þetta er eitthvað sem allir sem eru að koma fram og grinda á fullu þekkja.

Ég þurfti að fá sterapústið og allt þetta drasl og ég þurfti að þegja. Það fannst mér erfiðast, ég þurfti að halda kjafti allan daginn fram að giggi. Giggið var á Sjallanum, Emmsjé Gauti var með mér og Dikta var líka að koma fram þetta kvöld.“

Erpur náði að redda sér með hjálp Gauta sem gat bakkað hann vel upp. Dikta spilaði svo og í lok kvölds gat Erpur aftur „fýrað“ upp í röddinni.

„Strákarnir í Dikta voru búnir að kaupa Havana Club flösku sem þeir settu í veðbankann því þeir trúðu því ekki að ég gæti haldið kjafti þangað til að ég fór á svið og það var erfiðast við þetta. 

En mér tókst það og þetta er auðvitað agi, þú þarft að vera agaður með allt svona. Ég hef alltaf verið agaður með ákveðna hluti. 

Ég kem náttúrulega af vinnandi fólki. Ég var í sveit öll mín sumur sem krakki. Þrettán ára gamall var ég kominn í fullorðinsvinnu á bóndabæ með tuttugu mjólkandi beljur og þar fram eftir götunum. Bóndinn kenndi mér þetta og svo var ég að sjá um þetta.“

Erpur segist vita vel hvenær hann má vera óagaður. Eitt sinn þurfti hann að þegja heilan dag fyrir gigg og reyndist það honum mjög erfitt, en það tókst. Vísir/Vilhelm

„Veit hvenær ég má vera óagaður“

Hann segir mikilvægt að finna einhvern milliveg til að lifa eftir. 

„Það má fíflast og sprella og vera alveg bambóleó en svo eru hlutir sem þarf að klára. Ég veit hvenær ég má vera óagaður. Maður tekur alveg eftir því í bransanum að það er fullt af liði sem fattar þetta ekki og þetta rennur saman. 

En þetta er vinna og þú verður að standa þig. Þetta er líka eitt af því sem gerir að verkum að ég er búinn að vera fagmaður í bransanum síðan 2000.“

Hann segir agann sömuleiðis snúast um að halda sinni stefnu.

„Það er svo auðvelt að hugsa: Okkur vantar lag í útvarpið, fáum bara Dodda Flipp til að gera eitthvað rosa flipp. Það er ekkert að því að gera popp en við erum ekki poppband. Ef ég og Rottweiler værum alltaf að hlusta á hvað einhverjir markaðsapar eru að segja þá værum við í dag bara að flytja einhverjar skíta ábreiður á pílukastknæpu í úthverfi.

Við erum allir listamenn. Ég er upphaflega myndlistarmaður, Bent líka og við kláruðum báðir listabraut í menntaskóla. Lúlli er síðan þúsundþjalasmiður, leikstýrir, framleiðir og tekur upp risa sjónvarpsefni. 

Það er auðvelt að fara bara í eitthvað því mann vantar pening en við höfum alltaf haldið okkar stefnu. Ef þetta er ekki við þá höfum við ekkert með þetta að gera. Við göngum ekki í leggings, það er ekkert að því en við erum bara ekkert í því.“

Erpur segist í grunninn vera listamaður og fylgir sínum gildum. Vísir/Vilhelm

Vill ekki að fólk taki textunum persónulega

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Erpur byrjaði í bransanum og hann segist stöðugt vera að læra. Þá segist hann læra mest út frá sinni eigin reynslu og það geti smitað út frá sér.

„Ég er alltaf að reyna að vera ekki stríðinn. Ég hef rosalegan áhuga á heimsmálum og samfélagsmálum. Ég hef gaman að því að fíflast og það er töluvert síðan að ég fattaði að reyna að vera aldrei persónulegur. 

Það er smá barátta því ég er stríðinn en mér finnst hundleiðinlegt þegar einhver verður persónulega sár. Ég er kannski að koma með punkt sem skiptir mig máli en galdurinn er að geta sagt það án þess að verða persónulegur. 

Þetta snýst aldrei um einhvern einstakling. Bjarni Ben eða hvað það nú er, það er kerfið sem er vandamálið. Það skiptir engu máli hvort það sé hann eða næsti api í röðinni.“

Erpur er mikið í samfélagsmálum og er stríðinn en reynir þó aldrei að vera persónulegur. Vísir/Vilhelm

Hann segir sömuleiðis að það sé aldrei þannig í lífinu að maður sé orðinn fullþroska.

„Þú ert alltaf að reyna að verða betri, skilja betra eftir þig og þú þarft að gera mikið af mistökum til að læra af. Ég held að við í Rottweiler séum þannig að við höfum sjálfir þurft að gera mistökin og læra af þeim í staðinn fyrir að hlusta bara á eitthvað yfirvald.

Við erum mjög hreinskilnir við hvern annan. Þegar að stemningin er þannig að allir eru sáttir þá er hreinskilin umræða ekkert mál. Það eru ekkert mörg ár síðan að við fórum að geta gert það án þess að vera að rífast. 

Allar hljómsveitir þekkja það að rífast yfir einhverju en þetta snýst rosa mikið um sátt og jafnvægi. Nú er Bent búinn að vera edrú í eitt og hálft ár og það hefur aldrei gengið betur hjá okkur. Lúlli er kominn með tvö börn og stendur sig ótrúlega vel. Við erum í jafnvægi.“

Finnst gott að fá sér romm

Eins og áður segir tekur Erpur edrú tímabil á ári hverju þó svo að hann hafi aldrei tekið ákvörðun um að hætta að drekka um ókomna tíð.

„Ef það er eitthvað svaka mikið álag á mér þá sleppi ég því að drekka. Ég tek árlega þrjá mánuði edrú og er eingöngu í því að byggja mig upp. Þá er allt sem þú gerir til þess gert að stækka þig og byggja þig upp. Hvernig þú gerir þig og þitt umhverfi betra. Þetta er ótrúlega sérstakt.

En mér finnst svo gaman að fá mér romm sko, á vorin og sumrin fyrst og fremst. Áfengi er auðvitað ekki hollt, þú færð alveg að finna fyrir því og þú ert minntur á það daginn eftir. Ég tek alltaf harða þynnku. Þetta er svona með öll vímuefni, áfengi er náttúrulega bara löglegt fíkniefni.

En þú ferð í svo svakalega gott jafnvægi þegar þú hættir að drekka. Það er ekki verið að rugla neitt í boðefnunum. Öll þessi vímuefni snúast um boðefnisvindl. Líkaminn gefur þér öll þessi boðefni fyrir að gera ákveðna hluti sem líkaminn veit að eru hollir fyrir þig og umhverfið þitt. Hreyfing, næring, kynlíf og bara hlutir eins og að gefa af sér. 

Það eru boðefni sem verðlauna þig fyrir að vera almennileg manneskja við annað fólk. Þetta er svo mikilvægt því sumir segja að það sé mannlegt eðli að vilja vera forrík ræpa sem stútar öllum heiminum bara af því hann langar að rúnta um á geimskipi. Það er kjaftæði.“

Erpur segist finna fyrir gríðarlega góðu jafnvægi þegar að hann er edrú. Vísir/Vilhelm

„Drekk ekki ef mér líður illa“

Erpur segir að hann leggi upp úr því að sækja boðefnin í til dæmis hreyfingu og sjálfsrækt.

„Ég drekk ekki ef mér líður illa. Janúar er ógeðslega þunglyndur mánuður og þess vegna drekk ég ekki þá. Ég á ótrúlega mikið af vinum sem hafa verið með mér í gegnum tíðina á djamminu sem eru edrú í dag. Eins og þeir segja: Erpur er ekki alkóhólisti en hann er ofdrykkjumaður.

Allir vinir mínir eru alkar, helmingurinn virkir og helmingurinn óvirkir. Að drekka þegar þér líður illa er eitthvað sem ég hef aldrei gert. Það er ástæðan fyrir því að ég byrja að taka þennan þurrk.“

Álit annarra virðist ekki vefjast fyrir Erpi en hann hlustar þó á sitt fólk.

„Mér er drull sama hvað ókunnugu fólki finnst. Ég er alinn upp af mjög sjálfstæðu fólki, pabbi er ljóðskáld og rithöfundur og mamma er líka listhneigð. En þetta er vinnandi fólk þannig að þau höfðu ekki sama lúxusinn að geta leyft sér það eins og einhverjir silfurskeiðaskrattar geta. Það var bara ekki þannig. 

Ef þú kemur af þannig fólki þá er sjálfstæði og persónulegt frelsi rosalega undirstrikað. Það er rosaleg áhersla á að þú hlustir á fólk sem er að tala við þig af því þeim þykir vænt um þig. En þér er drull sama hvað einhver random apaköttur segir.“

„Mikið af stelpum, mikið af áfengi, mikið af giggum“

Hlutirnir fóru hratt af stað í upphafi ferilsins og segist Erpur hafa upplifað sig týndan eftir að hafa fengið mikla athygli á stuttum tíma.

„Þegar að við vorum búnir að vera á milljón í bransanum árið 2003 varð smá vendipunktur hjá mér og ég vissi ekki alveg hvað ég væri að gera. Rottweiler heimildarmynd, tvær Rottweiler plötur, Rímur og rapp, tvær Johnny Naz seríur og maður var að upplifa alla æskudraumana sína, sem var fyrst og fremst að vera listamaður og lifa af þessu.

Þetta gerðist svo hratt og það var svo mikill hvirfilbylur í kringum þetta. Mikið af stelpum, mikið af áfengi, mikið af giggum og mikið af öllu. Nú á ég öll viðeigandi verðlaun sem eru á Íslandi en það er ekki fyrr en löngu seinna sem ég horfi þarna upp á þau og hugsa bara: Þetta er galið! 

Á þessum tíma gekk þetta svo hratt að maður tók á móti verðlaununum eins og skiptimiða í strætó. Tengingin var engin og árið 2003 er maður ótrúlega týndur. Ég skildi ekkert hvað var að gerast. 

Það var þá sem ég tók mér pásu og vildi komast aðeins burt. Ég fór í lýðháskóla til Svíþjóðar í eina önn og kom svo heim og kláraði margmiðlunarfræðinginn með áherslu á stafrænar hreyfimyndir.“

Erpur segist eiga öll viðeigandi verðlaun en það tók hann dágóðan tíma að átta sig á því hve verðmætt það var. Árið 2003 ákvað hann að stíga skref til baka og taka sér smá hlé frá tónlistinni. Vísir/Vilhelm

Sköpunin mikilvægust, tæknin aukaatriði

Rappið hefur verið órjúfanlegur hluti af Erpi í áratugi. Sömuleiðis listsköpunin en fyrsta viðurkenningin sem hann hlaut var þegar að hann sigraði teiknimyndasögukeppni blaðsins Gisp. Á unglingsárunum var hann sömuleiðis að gera stuttmyndir með bróður sínum og vinum og hlaut verðlaun fyrir það.

„Sköpunin skiptir mig öllu máli og tæknin er aukaatriði. Þýski skólinn hamraði á mikilvægi sköpunarinnar óháð tækni. Ég fróa sálinni grimmt í gegnum sköpun. 

Það er eitt að vera Rottweiler hundur og síðan er annað að vera Arnarnespúðla í sniðugum galla. Ég ætla ekki að vera listahundur í sniðugum galla með Burberry mynstri sem leikur lystir sínar fyrir eiganda sem er gerpi.

Þó svo að listamannastéttin sé heft og það sé endalaust verið að reyna að ritskoða hana þá er hún samt frjálsasta stéttin.

Ég upplifi svo mikið frelsi í gegnum listina. Ég hef alltaf samið ljóð og ég get gert það og lifað á því í gegnum rappið. Hvað eru margir sem hafa lifað á tónlist í 25 ár? Ekki margir.

Það eru margir gamlir jaxlar og jöxlur í listum sem ég lít upp til og það er lið sem er drull sama. Þú átt að gera nákvæmlega það sem þér sýnist.“

Bannaðir í félagsmiðstöðvunum í 23 ár

Rauður þráður í lífi Erps er að hans sögn að vera samkvæmur sjálfum sér og þannig gangi hlutirnir upp.

„Það skiptir til dæmis engu máli hvort það sé rappbylgja í gangi eða ekki, Rottweiler fyllir húsið.

Ástæðan fyrir því að við erum með svona sterkan hóp í kringum okkur er vegna þess að við eigum eitthvað sem er ómengað og frjálst. Það er alltaf að bætast í hópinn af yngra fólki en við erum samt búnir að vera bannaðir í félagsmiðstöðvunum í 23 ár.“

Aðspurður afhverju þeir voru bannaðir segir Erpur:

„Því við erum villigrísir. Við vorum bannaðir strax bara 2001 en fólk var líka alltaf að reyna að finna eitthvað á okkur þó að það væri ekkert þannig.“

„Við erum meistarar orðanna“

Talið berst þá að umræðu um ábyrgð orða.

„Í dag er rosaleg áhersla á orð. Rétttrúnaðurinn (e. PC) snýst rosa mikið um að taka orð og stimpla þig út frá því hvaða merkingu einhver annar leggur í orðið. 

Ef þú ert svæsinn, blautlegur um skoltinn og klámkjaftur þá ertu allt í einu orðinn svona eða hinsegin. Það eru ótrúlega margir listamenn sem eru skíthræddir við orð.“

Erpur þrífst vel í rappsenunni og hefur gert síðustu 25 árin. Hann segist óhræddur við orðin en skilur samt gagnrýni á ákveðin orð. Hulda Margrét Óladóttir

Blaðamaður spyr Erp þá hvort hann hræðist ekki orðin.

„Nei við erum meistarar orðanna og við vitum alveg hvar við erum með prinsippin. Ég hef alltaf reynt að fylgja þeim. Eins og þekkt er í rappinu þá er ýmsum orðum slengt fram. 

Ég skil alveg að það sé gagnrýnt en mér finnst ekki rétt að fullyrða að einhver manneskja sé svona eða hinsegin þótt þú takir því þannig. Eins og þegar að við höfum notað orðið „faggi“ þá þýðir það ekkert „hommi“.“

Blaðamaður spyr þá hvort það trufli hann að orðið sé notað í niðrandi tilgangi í garð hinsegin fólks.

„Það er alveg rétt, enda notum við það ekki lengur. En við höfum aldrei sagt það til að niðra hinsegin fólk.

Nefnum sem dæmi Odd Future, krúið hans Frank Ocean tónlistarmanns. Það var alltaf verið að segja að þeir væru hómófóbískir því þeir notuðu þetta orð mikið. Svo kemur Frank Ocean út úr skápnum og er einn fyrsti stóri gæinn í rapp/r&b senunni til þess að gera það. 

Allt við það hvernig krúið tók á móti honum og fögnuðu var stórkostlegt. Á að dæma þá út frá þessari orðanotkun eða hvernig þeir brugðust við skápa-útgöngu Frank Ocean. 

En já, þetta var mjög mikið notað í rappi en er búið að minnka, gagnrýnin á notkunina er alveg rétt,“ segir Erpur en bætir við að sér finnist samhengið skipta máli.

Alltaf átt erfitt með sambönd

Talið berst að lokum að ástinni og segist Erpur aldrei hafa fundið sig í hefðbundnum hugmyndum um sambönd.

„Ég á ótrúlega erfitt með að skilja þetta. Ég á besta vin sem ég elska og það er aldrei neitt flókið en það eina sem kemur í veg fyrir að við séum par er að við erum ekki með kynhneigð til að eðla hvorn annan. Við gætum verið hamingjusamir saman að eilífu. 

En mér finnst konur flóknari. Og hugmyndir um barneignir og hreiðurgerð. Svo er maður líka að hugsa um frelsið sem listamaður og hvað virkar fyrir mig.

Ég hef alltaf átt erfitt með sambönd. Kannski er það bara allt í lagi en kannski er það óþroski. Þegar maður er skýr í hausnum eftir marga mánuði í sjálfsrækt einhvers staðar í Indónesíu þá fer maður mikið að spá. Þar snýst svo margt um að rækta sig, verða betri manneskja og vera stöðugt í sjálfsrækt.

Maður er náttúrulega pönkari og biður að heilsa alls konar þvælu sem samfélagið hefur reynt að troða í mann. 

Til dæmis að þú eigir að ná þér í konu, barn, smáhunda, göngustafi, flíspeysu og station bíl við 25 ára aldurinn, þessi vestræna hugmyndafræði sem fólk er matað af. Það er alveg margt frábært við fólkið sem byggir okkar part af heiminum en það er rosalega margt sem reynist vera þvæla. Maður þarf að finna sjálfur hvað er rétt í þessu.

Ég elska marga vini og vinkonur. Ég elska og er elskaður en það er spurning hvort það sé einhver vinkill á að gera þetta öðruvísi en mér hefur liðið best með. Aðalmálið er samt að elska og vera elskaður. 

Líkamlegir fimleikar með öðru fólki eru líka mjög mikilvægir. Þú getur ekkert verið að kýla þig í punginn í einhverju klaustri, þú þarft að fá líkamlega nánd. 

Þetta er svolítið spurningarmerki alltaf og maður þarf að kafa til að finna svörin,“ segir Erpur að lokum.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um Rottweiler tónleikana föstudaginn 17. maí. 


Tengdar fréttir

Missti fimmtán kíló á sjö vikum í Taílandi

Erpur Eyvindarson gengur í bindindi fyrstu þrjá mánuði hvers árs. Í upphafi þessa árs skellti hann sér til Taílands, þar sem lítið annað var að gera en að hreyfa sig og borða hollan og hreinan mat. 

Erpur segist tilbúinn fyrir föðurhlutverkið

Erpur Eyvindarson, betur þekktur sem Blaz Roca, segist tilbúinn fyrir föðurhlutverkið. Erpur hefur oft verið kallaður pabbi rappsins á Íslandi og hefur átt farsælan feril einn og með Rottweiler.

Erpur svaf ekki í þrjá mánuði í miðri ástarsorg

„Auðvitað kemur að því að allir verða ástfangnir og alveg rosalega mikið. Ég er að reyna sleppa því en ég klikkaðist,“ segir rapparinn Erpur Eyvindarson sem fjallað var um í Tónlistarmönnunum okkar á Stöð 2 í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×