Handbolti

„Á­nægður að við sýndum þá hlið að við getum verið góðir í sex­tíu mínútur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði átta mörk fyrir Ísland í kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði átta mörk fyrir Ísland í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti hörkuleik fyrir íslenska karlalandsliðið í handbolta er liðið vann 25 marka risasigur gegn Eistlandi í undankeppni HM í kvöld, 50-25.

„Mér fannst við bara vera hrikalega flottir frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Að skora 50 mörk í einum handboltaleik, það er ekki oft sem það gerist,“ sagði Gísli í leikslok.

„Ég er bara gríðarlega sáttur með það hvernig við komum inn í leikinn. Að gera þetta af fullum krafti og gera þetta svona vel eins og við gerðum.“

Fimmtugasta mark Íslands í leiknum kom ekki fyrr en á síðustu sekúndu leiksins þegar Orri Freyr Þorkelsson brunaði fram í hraðaupphlaup. Gísli segir að liðið hafi sett sér það markmið að skora fimmtíu mörk og að það hafi vissulega tekist, þó það hafi staðið tæpt.

„Það stóð tæpt, en það hafðist. Þegar þeir tóku leikhlé á 52. mínútu þá settum við okkur það markmið að fimmtíu mörk væri möguleiki og það hafðist,“ sagði Gísli léttur.

Hann er þó sérstaklega ánægður með það að íslenska liðið hafi ekki leyft sér að slaka á í síðari hálfleik, þrátt fyrir að leiða með fjórtán mörkum í hléi.

„Þetta var eitthvað sem við töluðum um í hálfleik. Þetta er oft eitthvað sem lið tala um, að ætla ekki að slaka á, en síðan einhvernveginn gerist það samt. Við vorum mjög fastir á því að gera þetta af sama krafti og við gerðum í fyrri hálfleik og ég er mjög ánægður að við sýndum þá hlið að við getum verið góðir í 60 mínútur í einum handboltaleik. Bara gríðarlega stoltur.“

Þá segir hann mikilvægt að taka þessa frammistöðu með liðinu í næsta leik gegn Eistum sem er á laugardaginn.

„Við ætlum að gera þetta eins vel á laugardaginn á móti þeim og vinna það líka bara örugglega,“ sagði Gísli að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×