Handbolti

Heimsmeistararnir stöðvaðir á síðustu stundu

Sindri Sverrisson skrifar
Tobias Gröndahl tryggði Noregi jafntefli við Danmörku í dag.
Tobias Gröndahl tryggði Noregi jafntefli við Danmörku í dag. EPA-EFE/Boglarka Bodnar

Noregur og Danmörk skoruðu helling af mörkum en gerðu að lokum jafntefli, 36-36, í Gulldeildinni í handbolta karla, í Osló í dag.

Um er að ræða fjögurra liða mót og fyrr í dag vann lið Dags Sigurðssonar, Króatía, eins marks sigur gegn Argentínu, 20-19.

Í seinni leik dagsins var sem sagt meira skorað í fyrri hálfleiknum einum, því staðan að honum loknum var 22-21 fyrir Noreg.

Heimsmeistarar Dana náðu forystunni í seinni hálfleik þegar þeir breyttu stöðunni úr 23-25 í 28-26 sér í vil, en Torbjörn Bergerud lét til sín taka í marki Norðmanna og þeim tókst að jafna í 35-35 þegar ein og hálf mínúta var eftir.

Danir komust aftur yfir en þegar aðeins fimm sekúndur voru eftir náði Tobias Gröndahl að tryggja heimamönnum jafntefli.

Danmörk og Noregur eru því með þrjú stig hvort á mótinu, Króatía tvö og Argentína ekkert. Mótinu lýkur á morgun þegar Króatía og Danmörk mætast, og Noregur og Argentína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×