Enski boltinn

Segir að staðan hjá United sé miklu verri en hún var hjá Moyes

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney var fyrirliði Manchester United þegar David Moyes stýrði liðinu.
Wayne Rooney var fyrirliði Manchester United þegar David Moyes stýrði liðinu. getty/Michael Regan

Ástandið hjá Manchester United um þessar mundir er mun verra en það var nokkurn tímann undir stjórn David Moyes. Þetta segir Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði United.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, er undir mikilli pressu en liðinu hefur gengið illa í vetur og er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Það er þó komið í úrslit bikarkeppninnar þar sem það mætir Manchester City.

Rooney var sérfræðingur á Sky Sports um leik United og Arsenal í gær. Þar var hann meðal annars spurður hvort starfið hjá Ten Hag væri undir.

„Ég held að það sé hjá öllum. Stjórinn, þjálfarar, leikmenn, allt félagið,“ sagði Rooney en United tapaði 0-1 fyrir Arsenal.

United hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan Sir Alex Ferguson hætti 2013 og margir stjórar hafa reynt fyrir sér á Old Trafford á þeim tíma. Meðal þeirra var Moyes sem tók við af Ferguson. Rooney segir að ástandið hjá félaginu þá hafi ekkert verið í líkingu við það sem það er núna.

„Við enduðum í 7. sæti með David Moyes þegar ég var hér. Ég veit að Moyes missti starfið sitt en mér leið aldrei eins og hlutirnir væru jafn slæmir og núna.“

Rooney lék einnig undir stjórn Moyes hjá Everton. Hann hefur sjálfur reynt fyrir sér í þjálfun með misjöfnum árangri en hann var rekinn frá Birmingham City í byrjun árs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×