Skoðun

Styðjum Katrínu Jakobs­dóttur

Gerður Ólafsdóttir skrifar

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á forsetaembættinu og mér var líka kennt að bera djúpstæða virðingu fyrir þeim einstaklingum sem gegna því. Þó ég sé fædd fyrir lýðveldistökuna man ég lítið eftir Svein Björnssyni. Hins vegar man ég vel, þá 11 ára gömul, spenninginn sem var vorið og sumarið 1952, það er að segja þegar Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn í embætti. Þá var legið við viðtækin og beðið eftir nýjustu tölum í forsetakosningunum, en þá var ég í sveit á Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit í Skagafirði. Ég man þannig vel þau Ásgeir, Kristján og Vigdísi, en auðvitað líka bæði Ólaf og Guðna okkar Thorlacius. Allt þetta fólk hefur verið landi og þjóð til sóma.

Ég er þess líka fullviss að Katrín Jakobsdóttir verður mjög farsæll forseti, nái hún kjöri. Hún hefur gegnt viðamiklum embættum og hefur gert það að ábyrgð og festu. Það er einmitt þau einkenni sem viðkomandi þarf að hafa til brunns að bera til að geta orðið góður forseti. Auðvitað erum við ekki sammála öllu sem stjórnmálamenn gera hverju sinni, en ég er sannfærð um að Katrín á eftir að vera verðugur fulltrúi á Bessastöðum. Til þess að svo megi verða, þurfum við öll, sem styðjum Katrínu, að fjölmenna á kjörstað hinn 1. júní næstkomandi og merkja við nafn Katrínar. Vísast er mjög frambærilegt fólk í kjöri nú, en ég tel Katrínu bera af til orðs og æðis. Ég verð líka vör við mikinn stuðning við framboð Katrínar í kringum mig, en það er ekki nóg; það þarf að mæta á kjörstað. Styðjum því Katrínu Jakobsdóttur til góðar verka!

Höfundur er hjúkrunarfræðingur á eftirlaunum.




Skoðun

Sjá meira


×