Enski boltinn

Telja að Bruno verði á­fram á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruno Fernandes fer ekki fet nema eitthvað óvænt gerist.
Bruno Fernandes fer ekki fet nema eitthvað óvænt gerist. Shaun Botterill/Getty Images

Þrátt fyrir orðróma þess efnis að Bruno Fernandes væri að hugsa sér til hreyfings þá hafi hann ákveðið að vera áfram í herbúðum Manchester United eftir að funda nýverið með félaginu.

David Ornstein, hinn gríðarlegi áreiðanlegi blaðamaður The Athletic, greinir frá en ekki er langt síðan það var talið að hinn 29 ára gamli Bruno væri að íhuga að yfirgefa Rauðu djöflana eftir fjögurra ára veru í Manchester-borg.

Fernandes og fylgdarlið hans settist hins vegar niður með forráðamönnum Man United og samkvæmt The Athletic fékk hann þar þá staðfestingu að liðið yrði áfram byggt í kringum fyrirliðann.

Portúgalinn vildi staðfestingu á þeirri vegferð sem Man United væri á en það má reikna með gríðarlegum breytingum á leikmannahóp félagsins í sumar þökk sé innkomu Sir Jim Ratcliffe og fyrirtæki hans INEOS. Nú þegar hefur verið tekið til á skrifstofunni.

Fernandes vill sjá sönnun þess að liðið geti verið samkeppnishæft á næstu árum en hann hefur fengið nóg af meðalmennsku. Það er því ekki hægt að útiloka að ef það komi risastórt tilboð í leikmanninn að hann gæti stokkið á það. Það er þó talið ólíklegt.

Samningur Fernandes á Old Trafford rennur út sumarið 2026 með möguleika á árs framlengingu. Þrátt fyrir að hafa ekki spilað jafn vel og undanfarin ár hefur Bruno samt skorað 15 mörk og gefið 11 stoðsendingar til þessa á leiktíðinni. Alls hefur hann spilað 230 leiki fyrir félagið, skorað 79 mörk og gefið 64 stoðsendingar.

Forráðamenn Man United sem og stuðningsfólk félagsins vonast til að Portúgalinn bæti við þá tölu áður en tímabilinu lýkur og þá sérstaklega gegn Manchester City í úrslitum ensku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×