Erlent

Auka við­búnað í að­draganda Euro­vision

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Keppnin fer fram á þriðjudag, fimmtudag og laugardag. 
Keppnin fer fram á þriðjudag, fimmtudag og laugardag.  EPA

Sænsk löggæsluyfirvöld hafa aukið viðbúnað í Malmö áður en Eurovision-vikan hefst, bæði vegna keppninnar og mótmælafundanna sem hafa verið boðaðir í borginni á sama tíma.

Fram kemur í frétt BBC að lögregla og skipuleggjendur keppninnar segjast undir allt búin og vonist til að keppnin verði „gleðirík“ í ár. Fimmtíu ár eru frá því að sænska hljómsveitin ABBA sigraði Eurovision með laginu Waterloo. 

Skiptar skoðanir hafa verið á Eurovision-keppninni í ár, sem og önnur ár, vegna framgöngu Ísraels á Gasa. Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, ákváðu fyrr á árinu að meina Ísrael ekki þátttöku í keppninni. Sú ákvörðun vakti furðu margra, í ljósi þess að Rússlandi hefur verið meinuð þátttaka í keppninni frá innrás Rússa í Úkraínu árið 2022. 

Gert er ráð fyrir að hundrað þúsund manns heimsæki borgina í Eurovision-vikunni. Þá er búist við að 200 milljón manns um heim allan horfi á keppnina. Venju samkvæmt fara undanúrslit fram á þriðju- og fimmtudag og úrslit á laugardag. 

Sækja liðsauka til Danmerkur og Noregs

Hersveitir frá öllum landshlutum Svíþjóðar hafa verið kallaðar til Malmö til þess að standa vörð meðan viðburðir vikunnar fara fram, bæði Eurovision og þeir fjölmörgu mótmælafundir sem hafa verið boðaðir. Þá hefur liðsauki frá Danmörku og Noregi verið kallaður til, að því er kemur fram í frétt BBC. Þá segir að sumir lögreglumenn komi til með að bera stærri vopn en venjulega. 

Petra Stenkula lögreglustjóri í Malmö segir í samtali við miðilinn að Svíþjóð sé nú þegar á viðbúnaðarstigi fjögur af fimm í tengslum við hryðjuverkaógn. 

Mótmælin líklega fjölmennari en áður

„Það er ljóst að öryggisleysið í heiminum bitnar nú á Eurovision,“ segir Stenkula. Hún segir marga mótmælafundi hafa verið haldna í landinu, sér í lagi í Malmö, gegn þátttöku Ísraela í Eurovision. Ekki hafi stafað ógn af neinum þeirra. 

Hún segir að vegna keppninnar hafi öryggismyndavélar verið settar upp í borginni, og að auki verði notast við drónamyndavélar í sama tilgangi. 

Hátt í tuttugu þúsund manns hafa verið að mæta á mótmælafundi í Malmö vegna Palestínu. Stenkula segir lögreglu undir það búna að talsvert fleiri mæti á mótmælafundina í vikunni. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×